Hvað veldur því að menn drepa fólk sem er ósammála þeim? Ég held að í þessu samhengi sé hættulegast að hafa algjörlega svarthvíta heimsmynd. Þá er ég ekki að tala um að telja sig hafa rétta skoðun og aðra ranga heldur að telja andstæðu skoðunina illa. Ekki rétt/rangt heldur gott/illt. Andstæðingurinn hefur ekki dregið rangar ályktanir, hann er ekki illa upplýstur, heimskur, siðlaus, óheiðarlegur eða gráðugur heldur hefur hann til að bera undirliggjandi vonsku.
Fox í Bandaríkjunum er ágætt dæmi um svona málflutning. Við sáum líka birtingarmynd þessa í IceSave umræðunni þar sem sumir töldu rétt að gera andstæðingum sínum upp illar hvatir sem skýrðu málflutning þeirra. Þetta var ekki fólk sem hafði komist að rangri niðurstöðu um hvað væri best fyrir Íslendinga eða hvað væri siðferðislega rétt heldur voru þeir vísvitandi að reyna að gera landsmönnum illt.
Ég þurfti reyndar ekki að bíða lengi eftir því að fá dæmi um svona málflutning. Í umræðum á bloggsíðu þar sem fjallað er um voðaverkin í Noregi kemur þessi athugasemd frá Vilhjálmi nokkrum Eyþórssyni.
Eins og ég hef bent á annars staðar er kjarni allrar vinstri mennsku hatur á eigin umhverfi og þjóðfélagi, sem oft er réttlætt með hugmyndafræði og fögrum orðum.
Sumir nota svona orðfæri án þess að trúa því í raun, mögulega í hita umræðunnar, en þá er alltaf hættan á að lesendur, hlustendur eða áhorfendur taki þetta alvarlega – sérstaklega þegar þetta er endurtekið nógu oft. Hvers vegna ekki að drepa fólk sem berst fyrir stefnu sem byggir á hatri á eigin umhverfi og þjóðfélagi? Hvers vegna ekki að ná í hríðskotabyssu og myrða þetta illa fólk? Það hlýtur að vera til þess eins að bæta heiminn.
Ég trúi ekki á hið illa og ég tel að slík trú sé stórhættulegt fyrirbæri. Ef maður er sannfærður um illsku þeirra sem hafa aðra skoðun en maður sjálfur þá er voðinn vís.