Fyrir frægðina

Ég er búinn að vera að skoða þessa “bók” sem hryðjuverkamaðurinn skrifaði. Þó það sé sagt að þetta sé að einhverju leyti stolið er margt frá honum sjálfum. Ég skoðaði meðal annars ótal blaðsíður af viðtali hans við sjálfan sig.  Þar spyr hann sjálfan sig spurninga og svarar þeim. Hann upplýsir lesendur meðal annars um uppáhalds rakspírann sinn. Þetta er svo nákvæmt. Óhugnanlegast er þó líklega að lesa nákvæmar lýsingar á vinum sínum og fjölskyldu. Hann fjallar um samband sitt við þau og skoðanir þeirra.

Hann er mjög upptekinn af því hve hann sé sjálfur merkilegur fyrir að gera það sem hann er að gera. Hann virðist helst af öllu hafa þráð aðdáun, jafnvel þó hún væri blandin andstyggð á verkum hans. Ég verð að segja að mér hefur fólk einmitt gert full mikið úr því hve vel þetta hafi verið undirbúið hjá honum. Ég held til dæmis að það bendi ekkert til þess að sprengingin hafi átt að vera minni verknaður en skotárásin. Ég held að hann hafi vonað að hann myndi ná að drepa forsætisráðherrann. Eins ætlaði hann sér greinilega meira eins og nú hefur komið fram. Hann vildi drepa Brundtland.

Af skoðunum hans er margt af því sem endurómar einfaldlega hluti sem maður hefur heyrt múslimahatandi  kristilega hægri menn segja áður. Hann hefði örugglega haft gaman af því að spjalla við hann Skúla Skúlason frænda minn (og Skúli játar sviklaust aðdáun sína á stuttmynd hryðjuverkamannsins). Það þarf vissulega að skoða þennan rotna afkima samfélags okkar því svona fólk getur verið stórhættulegt.

Hann fer út í miklar lýsingar á þessum endurvöktu Musterisriddurum sem hann þykist tilheyra. Ég verð að játa að ég fékk það frekar sterkt á tilfinningunni að þessi samtök væru uppspuni hjá honum. Allavega virðist það vera í ósamræmi við markmið leynisamtaka að upplýsa um tilvist þeirra og segja frá skipulagi þeirra. Vissulega þarf að rannsaka hvort þetta fyrirbæri er til en ég hef ekki mikla trú á því. Ég held að þetta hafi verið draumórar hjá honum. Að endurvekja kristilega riddarareglu sem berjast á við vondu múslimana. Hann vonar líklega að einhverjir geri alvöru úr þessum hugmyndum hans og stofni þetta fyrirbæri og hann verði dáður af meðlimunum. Hann gæti þá að lokum orðið einhvers konar þjóðardýrlingur endurreistrar kristilegrar Evrópu í þessari fantasíu sinni.

Það er líka það sem kemur aftur og aftur fram. Verknaðurinn var sjálfum honum til dýrðar. Hann vildi vera frægur þó hann væri fyrirlitin um leið. Hann vildi að fólk plægði í gegnum samhengislausu ruglbókina hans til þess að skilja hann betur en ég held að hann hafi talið að þarna gætu menn fundið manninn á bak við mikilmennið. Í staðinn sést einstaklingur sem er svo aumkunarverður og ómerkilegur að hann drap eins marga og hann gat til þess að verða frægur.