Hneykslunargirni Illuga

Í gær sá ég bloggfærslu hjá Illuga Jökulssyni þar sem hann ræðst á Steingrím Joð vegna ráðningar Páls Magnússonar. Merkilegt nokk er það sem ergir Illuga fyrst og fremst að ráðherra vilji ekki tjá sig um málið fyrr en búið væri að skoða málið innanhúss:

Má fjármálaráðherra ekki tjá sig um hvað sú mikilvæga stofnun, sem heyrir undir hann, tekur sér fyrir hendur?

Svarið er einfaldlega . Steingrímur má ekki lýsa skoðunum sínum á málinu áður en það hefur farið sinn farveg innan stjórnsýslunnar. Ef hann gerði það væri hann líklegast orðinn vanhæfur til að gera nokkuð í málinu. Við munum til dæmis eftir því þegar Siv Friðleifsdóttir lýsti sig vanhæfa til að úrskurða um einhverja virkjun af því að hún hafði áður lýst sig andvíga henni.

Illugi bætir við:

Þorsteinn Þorsteinsson er búinn að koma í Kastljósið og halda uppi vörnum fyrir ráðninguna. Ráðningarferillinn hlýtur að vera allur til á pappír. Það ætti ekki að taka nema svona klukkutíma að smala saman öllum gögnum málsins og fá í hendur Steingrími.

Merkilegt nokk þá er Kastljósið enginn dómsalur. Þorsteinn og hinir í stjórn bankasýslunnar eiga að hafa rétt til að svara beint til ráðherra um gjörðir sínar án þess að fjölmiðlar komi þar nálægt. Vissulega gæti Steingrímur haft viðtalið til hliðsjónar en hann fer ekki að reka stjórnina eingöngu á grundvelli þess.

Vissulega getur þetta litið út eins og þreytandi skrifræði þegar fólk vill að spilltir aðilar fái réttlæta refsingu. Hins vegar er ákaflega mikilvægt að mál séu afgreidd á fagmannlega vegu. Ekki fljótt og gróft til að geðjast almannarómi. Þetta er „Nýja Ísland“* Illugi, þar sem mál eiga að vera afgreidd faglega, ekki bara þegar á að ráða forstjóra bankasýslunnar heldur líka þegar á að reka stjórn hennar.

Sjálfur efast ég stórlega um að stjórn bankasýslunnar eigi sér nokkra vörn og ég vona innilega að henni verði sparkað í heild. Það er í raun mikilvægara heldur en að sparka Páli Magnússyni. Það verður að senda skýr skilaboð til þeirra sem sjá um ráðningar á vegum ríkisins að vinaráðningar séu ekki liðnar.

* Rétt er að taka fram að mér dytti aldrei í hug að nota hugtakið Nýja Ísland nema í háði enda hefur mér alltaf þótt það bjánalegt.

2 thoughts on “Hneykslunargirni Illuga”

  1. Góð bloggfærsla Óli.

    Ég les bloggsíðuna hans Illuga nokkuð reglulega og verð sífellt meira var við það að hann virðist telja að það sé samasem merki á milli orða eins og t.d. fagmannlegt og lýðræðislegt og þess að komast að þeirri niðurstöðu sem honum hugnast og á þann hátt sem hann telur réttan.

    Hann er langt því frá sá eini sem er haldinn þessum ranghugmyndum, en þetta er engu að síður hvimleitt.

  2. Heyr heyr. Mér hefur þótt ómaklega að SJS vegið vegna þessa máls. Ég ver ekki ráðninguna, held að einhver eigi ráðningu skilið fyrir hana, svona ráðningu sem skilur eftir roða á rassi.

Lokað er á athugasemdir.