Rafbókavefurinn

Þó ég sé á kafi í öðru þessa daganna setti ég Rafbókavefinn í loftið um daginn. Þetta eru fyrstu drög að meistaraverkefni mínu í hagnýtri menningarmiðlun. Á Rafbókavefnum eru ókeypis rafbækur í opnum aðgangi í formi sem hentar fyrir Kindle og aðra rafbókalesara sem og spjaldtölvur. Núna eru þar 52 bækur. Nákvæmlega 50 af þeim eru unnar uppúr textum Netútgáfunnar – efni sem er komið úr höfundarrétti. Það eru 35 Íslendingasögur, Heimskringla og síðan eru það gamlar skáldsögur – aðallega eftir Jón Trausta. Ein er eftir Eirík Örn Norðdahl en það er bókin Ást er þjófnaður sem ég skrifaði um nýlega (EÖN óskar eftir framlögum frá niðurhalendum). Síðasta bókin er Andlegt sjálfstæði sem ég ritstýrði og var gefin út fyrir þremur árum.

Ég er síðan líklega að fá eina bók frá háskólaprófessor sem ég kannast við. Annar er að skoða möguleikann. Nú þarf ég bara að fara að pota í fleiri og fá efni þarna inn. Ég er annars að leita að allskonar efni, það mega vera skáldsögur, fræðirit eða hvaðeina sem fólk er tilbúið að dreifa á þennan hátt. Það græða fáir á því að gefa út á pappír en á þennan hátt er hægt að gera efni aðgengilegt fyrir almenning á frekar einfaldan hátt.

Ég er alveg sannfærður um að rafbækur á þessu formi séu framtíðin – ef ekki bara einfaldlega samtíðin. Ég man sjálfur ekki eftir að hafa lesið annað eins magn af bókum og frá því að ég keypti Kindle núna um páskana. Þetta opnar manni alveg nýja heima og ég vil opna þessa heima fyrir þá sem lesa helst á íslensku.

Þó vefurinn sé enn í tilraunaútgáfu er hann sérlega þægilegur fyrir þá sem hafa áður sótt sér rafbækur á netið en ekki endilega hentugur fyrir þá sem hafa kannski bara keypt bækur fyrir Kindle beint af Amazon. Betri leiðbeiningar eru væntanlegar. Ég vil endilega fá viðbrögð frá fólki og það má kommenta á flestar síður á vefnum.