Stórar og litlar undanþágur

Það er undarlegt að fólk lýsi því yfir að stærðin á landinu sem Kínverjar ætluðu að kaupa skipti ekki máli varðandi undanþágur. Að sjálfsögðu skiptir stærðargráða undanþágu ákaflega miklu máli þegar um er að ræða undanþágur frá lögum og reglum.

Ef við tökum nýlegt dæmi þá var kanadískum dreng vísað úr landi. Í því tilfelli hefði, ef ég man rétt, verið hægt að veita undanþágu. Hann var víst um tveimur mánuðum of ungur til að fá dvalarleyfi. Í því tilfelli var stærðargráðan á undanþágunni ákaflega lítil og á þeim forsendum hefði ég einmitt stutt hana. Tveir mánuðir til eða frá skipta voðalega litlu máli í þroska. Ef hann hefði hins vegar verið tveimur eða fjórum árum yngri en kveðið var á um þá hefði undanþágan verið stór. Um leið hefði opnast stór glufa fyrir alla þá sem eru á sama aldursbili vegna fordæmis. Lögunum hefur í raun verið breytt ef fordæmið stendur.

Að sjálfsögðu gildir það sama um kínversku landakaupin. Ef einhver utan EES vildi kaupa einhvern smáskika þá væri það lítil undanþága frá lögunum. Ef einhver ætlar að kaupa stórt landsvæði þá er fordæmið slíkt að lögin missa allt vægi sitt. Ef fólk er í sjálfu sér á móti lögunum þá á það að leggja til breytingu á þeim en ekki kvarta yfir því að farið sé eftir þeim.