Áratugur í bloggi – brot af bloggsögu

Í dag eru tíu ár síðan ég hóf blogg af alvöru – raunar hafði ég fiktað með svipað form árið 1999 en það gekk stutt. Ég bloggaði fyrst einn og yfirgefinn. Rúmu ári síðar fór ég á Kaninkuna í boði Palla Hilmars. Að lokum langaði mig að sjá um eigin vef og setti truflun.net af stað með bloggum fyrir vini og ættingja.

Þegar hæst stóð bloggaði ég upp á hvern dag, áleit það sérstakt markmið í sjálfu sér, og var með lengi með fastan lestur upp á mörg hundruð manns á dag. Ef færslunni var deilt á einhverjum góðum stað fóru heimsóknirnar upp í þúsundir. Það var á tímabili reglulega vitnað í bloggið mitt á síðum dagblaða. Það var ekki óalgengt að fólk byrjaði að spjalla við mig af því að það hafði lesið bloggið mitt.

Þegar ég byrjaði að blogga þá tók ég viljandi ákvörðun um að reyna að komast inn í ákveðið bloggsamfélag sem var líklega það mest áberandi á sínum tíma. Þetta tókst mér. Kjarni þess á þeim tíma var rss-mola síðan hans Bjarna þar sem maður gat fylgst með uppfærslum hjá þessu fólki (og reyndar ýmsum sem voru aldrei beinlínis hluti af því). Þetta bloggsamfélag hafði nokkra undirhópa og ég datt, merkilegt nokk, inn í vinstrimannahópinn.

Á þessum tíma höfðu fæstir athugasemdakerfi og því var umræðan dreifð og lifandi yfir samfélagið. Í stað þess að umræða skapaðist við bloggfærslu einhvers eins manns þá tóku margir þátt í því á mörgum bloggum. Þannig fór til dæmis umræða um teiknimyndaþáttinn Gullborgirnar vítt og breytt um bloggheima. Ég nefni þetta dæmi sérstaklega af því að bloggið var ekki jafn pólitískt og það varð síðan. Þetta var ekki vettvangur til að ræða landsmálin heldur vettvangur þar sem meðal annars var fjallað um þau.

Það var á sínum tíma skrifuð fræg grein á vefritið Kreml (munið þið eftir pólitísku vefritunum?) um blogg. Þar var hneykslast á því að á bloggum væri fólk að tala um uppáhalds teiknimyndasögurnar sínar, hvaða fræga fólk það hefði hitt og hvað heimilistæki voru biluð heima hjá því. Mig hefur alltaf grunað að þessi greinahöfundur hafi verið að lesa mitt blogg áður en hún skrifaði þessa færslu. En bloggheimar svöruðu greininni með því að skrifa færslur um uppáhalds teiknimyndasögurnar sínar, fræga fólkið sem það hafði hitt og hvaða heimilistæki væru biluð hjá þeim.

Það sem mér þykir eftir á hafa einkennt þetta bloggsamfélag er að það hafði rætur meðal fólks sem hafði lengi verið á netinu. Fólk sem fór eftir ákveðnum siðareglum og hugmyndum sem voru líklegast aldrei skráðar og sjaldan yrtar. Þetta hvarf síðan að einhverju leyti þegar íslenskar bloggþjónustur fóru að taka við. Sérstaklega Moggabloggið. Þar fór fólk að blogga sem hafði litla reynslu af netinu og hafði ekkert fylgst með því bloggsamfélagi sem var til fyrir.

Það var annað sem ég tel að hafi farið fyrir brjóstið á gömlu bloggurum og það er að Moggabloggið var tilraun til þess að taka yfir eitthvað sem var frjálst og óháð og stofnanavæða það. Í stað óformlegs nets af bloggurum varð til stór blokk af bloggurum sem tengdust hver öðrum vegna fjárhagslegra hagsmuna Morgunblaðsins. Fréttatengingin á Moggablogginu varð líka til þess að bloggin yrðu oft frekar einhæfar umsagnir um það sem skrifað var á Mogganum. Ég tek fram að það voru vissulega ýmsir skemmtilegir bloggarar þarna og eru enn. Hins vegar hurfu þeir dálítið í fjöldann.

Ég hef það á tilfinningunni að það hafi verið fyrir kosningarnar 2007 sem bloggið varð undirlagt pólitík í fyrsta skipti og hið hversdagslega hvarf. Um svipað leyti, eða aðeins seinna, fóru vefmiðlar að hampa ákveðnum bloggurum og setja þá í aðalhlutverk til að lokka gesti að. Slík blogg urðu einmitt mjög áberandi mikið um landsmálin eða allavega mjög þematengd. Aðdragandi og eftirmál bankahrunsins eru líka sýking sem bloggið hefur ekki losað sig við.

Fólk hætti ekkert endilega að vilja að tala um hið hversdagslega en það færðist á annan miðil: Facebook. Á sama hátt og Moggabloggið bjó til sitt samfélag í eigin þágu þá gerði Zuckerberger það líka. Hann gekk skrefinu lengra og lokaði það algjörlega af. Að vissu leyti er það þægilegt. Ég hef engan sérstakan áhuga á að deila með heiminum því sem ég hef að segja um son minn (ólíkt Barnalandsbloggurunum sælla minninga). Það er hins vegar verra að þessi lokun veldur því að maður finnur ekki lengur veitingahúsarýni með gúggli. Flestir sem vilja deila því hvernig reynsla það var að fara út að borða á ákveðnum stöðum er farið að deila slíkri rýni á lokuðum svæðum og þó tímalínan opni fortíðina á Facebook þá hverfa þessar umsagnir fljótt niður.

Það er stofnanavæðingin á netinu sem ég hræðist og veggirnir sem fylgja því. Þó það sé gott að fólk geti reist veggi utan um sín einkamál þá er verra þegar veggir eru reistir á forsendum fyrirtækja sem vilja loka fólk inni í þeirra kerfi. Þetta verður alltaf verra og verra. Núna eru ýmsir vefmiðlar byrjaðir að heimta, jafnvel krefjast, að til þess að maður geti opnað hlekki á fréttir þeirra á Facebook þá skrái maður sig hjá þeim. Hér gæti ég talað um Michel de Certeau, strategíu og taktík en ég bíð með það þar til ég skrifa fræðilega um efnið.

Andúð mín á stofnanavæðingu netsins er væntanlega ástæðan fyrir því að ég er ennþá með þetta blogg í gangi. Bloggsamfélagið sem ég tilheyrði er að mestu horfið og með því hverfur að miklu leyti hvatinn til þess að skrifa. Ég reyni þó.

Það er annars skrýtið að hafa fortíð svona aðgengilega á netinu. Það er sumt þarna sem maður sér eftir. Ég finn líka að ég er orðinn ósammála sumu sem ég sagði hér áður fyrr. Þetta er hins vegar ómetanleg heimild um síðasta áratug sem ég á – þó hún sé ekki jafn ítarleg síðustu árin. Blogg mín um utanlandsferðir og sérstaklega Corkdvölina eru reglulega lesin þegar mig langar að rifja eitthvað upp. Kannski að tímalínan á Facebook muni bjarga einhverju þegar ég fer að rifja upp síðustu fimm árin en það verður aldrei jafn ítarlegt.

Síðast en ekki síst þá hef ég kynnst ótalmörgum í gegnum bloggið og er þakklátur fyrir það. Sumir eru löngu hættir að blogga en eru þó enn góðir vinir mínir. Aðrir voru upprunalega bara lesendur mínir sem ég síðan kynntist. Það hefði verið verst að missa af því.

0 thoughts on “Áratugur í bloggi – brot af bloggsögu”

  1. Ég er í svipuðum sporum, þykist enn halda úti bloggi þrátt fyrir að það hafi verið afar slappt lengi. Hef ekki haft tíma í þetta undanfarið. Sé mest eftir einmitt því að hafa ekki haft þessa dagbók undanfarin ár, veit betur hvað ég gerði 2004 en t.d. 2010.

    Vona að þú haldir áfram blogginu um ókomna tíð!

Leave a Reply