Rafbókaútgáfu – allt öðruvísi en sú gamla

Ég var rétt í þessu að skoða staðlaða útgáfusamninga Rithöfundasambandsins og fann það sem ég var að leita að, klausu um rafræna útgáfu:

d. Rafræn útgáfa. Sé ekki um annað samið hefur útgefandi verksins rétt til útgáfu þess á rafrænu formi. Hafi útgefandi ekki nýtt sér þann rétt innan 18 mánaða frá útgáfudegi prentaðrar bókar fellur rétturinn til höfundarins að nýju. Að liðnu þessu tímabili á útgefandi rétt á að höfundur tilkynni honum skriflega um fyrirhugaða rafræna útgáfu og skal hann eiga forgang til útgáfunnar enda takist samkomulag með útgefanda og höfundi um skilmála útgáfunnar innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningarinnar. Að öðrum kosti er höfundi frjálst að ráðstafa réttindum þessum án frekara samráðs við útgefanda.

Þetta er í raun stórmerkilegt því hér hafa rithöfundar alveg frábært tækifæri á að reyna sig við ný viðskiptamódel. Vissulega á upprunalegur útgefandi “forgang” en það er erfitt að sjá hvernig þeir myndu bregðast við kröfum á við 80/20 samning eins og þann sem Emma býður upp á.

Það módel sem ég vona að einhverjir höfundar reyni sig við er sú hugmynd að eftir því sem lægra verð er á rafbók því líklegra sé að þær séu keyptar. Það er hægt að endurskilgreina bækur þannig að þær séu “tækifæriskaup” – eitthvað sem þú rekst á og kaupir af því að verðið er nógu lágt til þess að það skipti ekki öllu máli hvort þú stefnir á að lesa bókina strax eða eftir ár. Þú kaupir rafbókina af því að þú vilt hafa hana í þínum rafbókalesara/spjaldtölvu þannig að þú getir lesið hana eftir hentugleika.

Það er sjálfsögðu erfitt að finna hvaða verð séu rétt en mig grunar að þúsund króna markið sé líklega það sem fólk setji markið við þegar það hugsar um tækifæriskaup. Grunhugmyndin er allavega sú að þú getir til dæmis selt tíu sinnum meira af bókum ef þú lækkar verðið um allavega helming.

Algengt verð á nýrri rafbók hjá Forlaginu er um 4000 krónur (!). Af því fær höfundurinn 25% eða um 1000 krónur. Segjum að sami höfundur myndi kjósa að selja rafbókina sína í gegnum Emmu á 1000 krónur. Fyrir hvert selt eintak myndi hann fá 800 krónur. Til þess að fá jafn margar krónur fyrir útgáfunni hjá Emmu og hann fengi hjá Forlaginu þarf hann að selja fimm bækur hjá Emmu miðað við fjórar bækur hjá Forlaginu. Ég myndi veðja að líklegra sé að höfundurinn gæti selt tvöfalt eða þrefalt hið minnsta þegar verðið hefur lækkað svona mikið. Ég myndi segja að tífalt meiri sala væri ekki óhugsandi. Það þýðir mikið meiri gróði fyrir höfundinn.

Ég myndi veðja að gömlu bókaútgáfurnar muni seint átta sig á þessum hugmyndum. Það þýðir að sjálfsögðu að Emma (og aðrir sem nota þetta svipað módel) eiga auðveldara með að hasla sér völl á þessu sviði. Það er síðan bara spurning hvaða höfundar eru nógu hugrakkir til að reyna þetta.