Tíu litlir negrastrákar í Eymundsson

Ég var í Eymundsson í Mjóddinni áðan með syni mínum. Ég tók þá eftir gamalli konu sem talaði hátt við afgreiðslustúlku. Hún var, að mér heyrðist, að tala um hve slæmt það væri að það væri ekki hægt að fá bókina Tíu litla negrastráka. Hún sagðist þau hafa verið svo heppin að hafa nælt sér í eintak af bókinni. Næst fór hún að tala um hve skelfilegt það væri að mega ekki lengur nota orðið negri (og þar með raunar misskilja algjörlega hvað það er sem er ógeðfellt við þessa bók).

Síðan hélt hún áfram og talaði um hve “við, ég vil ekki segja eðlilega fólkið” höfum þurft að gefa mikið eftir til þessa litaða fólks. Hún talaði síðan meðal annars gegn því að það væri verið að flytja “þetta fólk” inn í hlössum. Ég veit ekki hver afstaða afgreiðslustúlkunnar var í þessu sambandi en mér sýndist hún vera einhvern veginn klófest í þeirri stöðu að segja vandræðalega “já” við því sem konan sagði. Ég fékk nóg á ákveðnum tímapunkti og greip drenginn, gekk upp að henni og sagði að ég væri glaður að sonur minn skildi ekki þennan rasisma sem hún væri að láta út úr sér og strunsaði út.