Rafbókaráðstefnur

Í síðustu viku hlustaði ég á netinu á rafbókaráðstefnu lesblindra. Það var margt ágætt. Fróðlegast þótti mér reyndar að heyra beint frá Vogaskóla þar sem Kindle-tilraunin fer fram. Það var ánægjulegt að heyra að þar verður alvöru menntavísindamaður sem sér um að athuga hvernig þetta gengur. Það hefði mátt nota það fyrr við kynningu á verkefninu en það hefði líklega getað minnkað þá neikvæðni sem maður sá hér og þar. Skemmtilegast var að heyra frá krökkunum sjálfum. Þau voru ekki með mjög vísindalegt mat en höfðu gert könnun um hvernig nemendum líkaði við Kindle. Niðurstaðan var um það bil sú að fjórðungi fannst eins gott að lesa Kindle og pappírsbók, fjórðungi þótti það verra en helmingi betra að nota Kindle.

Í dag fór hins vegar fram rafbókaráðstefna Upplýsingar félags bókasafns- og upplýsingafræða. Að öðrum ólöstuðum þótti mér lykilfyrirlestur Hannes Eder fróðlegastur. Hann hefur unnið að stafræningu bóka fyrir bókasöfn og útgefendur. Hann hefur líka tekið að sér að gerast málamiðlari milli þessara aðila um hvernig eigi að gera rafbækur aðgengilegar á bókasöfnum. Hann lagði til að bókasöfn kæmu að því að koma eldri titlum sem enn eru í höfundarétti á stafrænt form. Ég er alveg sammála honum í því. Hann talaði líka um nauðsyn þess að bókasöfn hafi aðgang að frumeintaki af rafbókum sem eru lánaðar út. Hann talaði mikið um hve lýsigögn eru dýrmæt í samhengi rafbóka. Margt þarna sem ég hafði hugsað en kominn dáltið lengra en ég í þessum pælingum.

Sigurbjörg Jóhannesdóttir frá Menntamálaráðuneytinu spjallaði um þeirra stefnu þeirra og greinilegt að þau eru farin að pæla í samvinnukennslubókum. Fyrirlesturinn frá Blindrabókasafninu var góður og hefur örugglega aðeins opnað augu þeirra sem hafa ekki hugsað um staðlamálin. Emmu-Óskar var með fínt yfirlit yfir hvernig greiðslukerfi frá bókasöfnum til höfunda/útgefenda gætu virkað. Bæjarbókavörður Seltjarnarness fær stórt prik fyrir að nota mynd af Star Trek spjaldtölvu og líka fyrir að tala um mikilvægi þess sem ég myndi kalla menningarmiðlun í starfi bókasafni í framtíðinni. Halldóra Þorsteinsdóttir af Bókhlöðunni talaði um rafrænan aðgang og rafbækur. Síðust var Ragna sem talaði um skráningarvandamál og kom með eintak af bókinni Ást er þjófnaður sem dæmi (þar sem hún kemur út í mörgum formum). Formaður Upplýsingar lauk ráðstefnunni og var frekar hörð sem er gott.

Á milli Rögnu og Halldóru talaði ég um sjóræningjastarfsemi á bókum, bókasöfn og afritunarvarnir. Óneitanlega margt sem mér þótti áhugavert þar. Verst að fyrirlesarinn var eitthvað taugaóstyrkur – mögulega spilaði svefnleysi þar inni í. Ég hefði líka átt að muna þau einföldu sannindi að ég tala alltaf betur þegar ég tala út frá punktum og sleppi því að hafa hlutina ítarlega niðurskrifaða. Ég varð annars ánægður með kollega mína þegar ég kom með tilgátu í upphafi fyrirlestrar um að góð leið til að auka lestur drengja væri að auka framboð á góðum íslenskum rafbókum í sjóræningjaútgáfu. Það virtist enginn hneykslaður og flestir virtust fatta hvert ég var að fara með punktinum áður ég útskýrði hann.