Eru útgefendur að blekkja rithöfunda?

Um daginn var ég spurður hvort útgefendur væru ekki að blekkja rithöfunda til að þiggja lægri hlut af söluverði rafbóka með því að réttlæta það með kostnaðinum við gagnslausar afritunarvarnir. Ég svaraði neitandi. Ég held í fyrsta lagi að útgefendur séu fyrst og fremst hræddir og það stjórni aðgerðum þeirra. Í öðru lagi held ég að rithöfundar, allavega þeir sem eru eldri og á traustari grunni, séu eiginlega jafn hræddir og útgefendur. Hvorki rithöfundar né útgefendur treysta rafbókum og í stað þess að læra af mistökum úr tónlistariðnaðinum ætla þeir að endurtaka öll sömu mistökin og voru gerð þar.

Það er þó vissulega til staðar að útgefendur eru að reyna að halda valdi sínu. Hér er komið form sem getur ýtt útgefendum til hliðar. Völdin sem þeir höfðu með því að geta fjármagnað prentun og séð um dreifingu eru horfin. Hver sem hefur grundvallar tölvuþekkingu á að geta séð um umbrot á rafbók. Það er þó ekki þannig að útgefendur hafi ekki eitthvað að bjóða. Þar má nefna ritstjórn, prófarkalestur, kápuhönnun og markaðsetning. Þetta er reyndar allt þjónusta sem netútgefendur eins og Emma geta boðið upp á (mig minnir að þeir bjóði þegar upp á einfalda kápuhönnun og síðan er einhver markaðsetning). Ég veit reyndar að höfundar eru oft helst ósáttir við skort á markaðsetningu á bókum þeirra af hálfu útgefenda.

Þeir rithöfundar sem eru í áhugaverðustu stöðunni núna eru þeir sem hafa aldrei haft útgefendur og höfundar sem hafa ekki lengur útgefendur. Þetta eru þeir sem geta helst gert tilraunir með rafbókamarkaðinn. Þeir hafa litlu eða engu að tapa. Fólk vill lesa rafbækur og það vill ekki eyða mörg þúsund krónum í hverja bók. Það er pláss fyrir og ég get ekki ímyndað mér annað en að einhverjir þeirra sem stökkvi á þennan möguleika muni græða vel á því.