Á miðvikudagskvöld lögðum við af stað til Árósa. Reyndar seinkaði fluginu dáltið þannig að við lentum seint og síðarmeir (tvö um nóttina cirka). Við vorum í vél með Svövu og Völu frænkum mínum.
Hafdís náði í okkur á flugvöllinn í Billund og keyrði okkur til Árósa. Ég kannaðist aðeins við mig og mig grunar að ég hafi keyrt framhjá gamla hverfinu hans Arngríms miðað við hve hryllingslýsingar hans og Hafdísar fóru vel saman.
Fimmtudagurinn byrjaði með hressleika eins fjölskyldumeðlims sem hafði þó sofið ákaflega lítið. Við röltum um hverfið þeirra og enduðum á ströndinni. Við Gunnsteinn og Sóley óðum út í sjó. Buxurnar mínar rennblotnuðu en þetta var voða fjör. Sjórinn voða þægilegur. Það var lítið afrekað meira um daginn enda við dauðþreytt. Jú, fórum reyndar í matvöruverslun og horfðum á Júróvisjón um kvöldið. Við Mummi spjölluðum reyndar yfir fyrsta hlutann. Gott að geta setið í hlýjum garði fram á kvöld.
Á föstudag fórum við niður í miðbæ. Ég verslaði mér ákaflega fína skó með stífum sólum. Við borðuðum líka kebab. Gunnsteinn tilkynnti okkur líka á ákveðnum tímapunkti að mömmu hans og pabba langaði í ís. Reyndar var það rétt hjá honum en ég ætla samt ekki að reyna að láta hann vinna milljónina hans Randi fyrir hugsanalestur. Um kvöldið spiluðum við en vorum líka bara dösuð af sólinni.
Á laugardag fórum við seint og síðarmeir af stað niður á strönd. Ekki jafn hlýtt og á fimmtudag en ég lét mig hafa það og eyddi þónokkrum tíma í sjónum að skvetta á Sóleyju frænku. Dösuð eftir á. Júróvisjón um kvöldið. Ég hafði spáð keppni milli Rússlands, Svíþjóðar og Tyrklands um sigurinn. Nennti ekki að spá tíu efstu sætunum eins og sumir.
Á sunnudag fórum við í Tívolí Friheden. Ég er ekki tívolíkall en lét mig hafa það og hafði merkilega gaman af. Líklega er skemmtilegra að sjá barnið sitt skemmta sér í tækjum heldur en vini sína. Ég fór í eitt tæki og fraus að sjálfsögðu. Það var samt þannig að litlir krakkar máttu fara einir í það. Gunnsteinn fór hins vegar í mörg tæki og hafði mjög gaman af. Skemmtilegast þótti mér að fara í Svanahjólabát. Þar sá reyndar Sóley frænka um að hjóla því ég átti erfitt með af því að ég var full stór, í sandölum og þurfti að sitja cirka á miðjunni til þess að hafa jafnvægi á milli okkar.
Drengurinn er búinn að vera með jarðarberjabragð á heilanum undanfarið og það kom meira að segja drama í tívolíinu þegar hann fékk bara hvítan ís (það stóð stutt reyndar). Honum finnst jarðarber hins vegar voðalega ógeðfelld og spítti þeim út úr sér, hvort sem þau voru eintóm eða í jógúrt.
Annars var rosalega gaman hjá honum og Sunnu og Sóleyju. Þau náðu mjög vel saman. Sunna er rosa fyndin með sitt óhóflega danska næj.
Í morgun dúlluðum við okkur þar til Hafdís skutlaði okkur á flugvöllinn. Ég mæli ekki með veitingastaðnum á flugvellinum. Samlokan þar var skelfileg. Ég skil ekki hvernig flugvallarmatsölustaðir geta verið svona staðfastir í að hafa bæði dýran og vondan mat.
Flugið heim var ódramatískt. Ég lét Kindle lesa fyrir mig Augu drekans og var ekkert óhóflega panikkaður í lendingu. Þutum síðan fljótt út af flugvellinum og það var ljúft að koma heim.
Sé eftir því að hafa ekki elt uppi vini mína og skólafélaga í borginni en svona er þetta þegar maður er með fjölskyldunni.