Jay Leno (eða NBC) stelur og stelur

Brian Kamerer bjó til fyndna kosningaauglýsingu fyrir vin sinn sem var í framboði í einhverjum smábæ. Þessi auglýsing var síðan sýnd í þætti Jay Leno. Höfundurinn var ekkert sár yfir því þó hann hafi ekki fengið neitt borgað fyrir það eða yfirleitt verið látinn vita af því það ætti að sýna auglýsinguna. Bara glaður yfir athyglinni. Nokkrum árum seinna hverfur myndband með auglýsingunni af YouTube með tilkynningu um að NBC eigi þetta efni og það hafi verið birt án heimildar. Höfundurinn var sumsé ásakaður um að hafa stolið eigin höfundarverki.

Ég geri ráð fyrir að það sem gerst hafi sé að einhverjir “róbótar” á vegum NBC hafi verið að skanna myndbönd á YouTube. Þau eru síðan borin saman við efni sem NBC hefur framleitt. Það sem fyrirtækið hefur vanrækt, líklega bara af því að þeim er sama, er að segja róbótanum að þeir eigi ekki réttinn á öllu sem kemur fram á þætti Jay Leno.

Þegar James Randi kom til Íslands sagði aðstoðarmaður hans mér að þeir ættu einmitt í vandræðum með NBC. Randi kom nefnilega oft fram í þáttum Johnny Carson og fékk leyfi frá honum til þess að nota upptökur af þeim heimsóknum að eigin vild. Aðstoðarfólk Randi setur því þessar klippur á YouTube en lendir endalaust í því að NBC lætur taka þær niður (þó fyrirtæki Carson eigi þær).

Mig minnir líka að leikstjóri Der Untergang hafi lagt blessun sína yfir öll myndböndin þar sem Hitler er að ærast yfir öllum mögulegum hlutum en framleiðendurnir hafi áfram haldið að biðja YouTube að fjarlægja þau.

Svona virkar þetta. Stóru framleiðendurnir geta í raun bara sagt að þeir eigi efni á YouTube og það er síðan fjarlægt. Það er til einhver “áfrýjunarmöguleiki” en það er víst ákaflega erfitt ferli. Litla fólkið hefur náttúrulega enga möguleika á því að slást við dýru lögfræðingana sem NBC hefur á sínum snærum. Það myndi aldrei svara kostnaði.

Brian Kamerer ákvað að nota aðra aðferð. Hann skrifaði opið bréf til Jay Leno. Að sjálfsögðu hefur Jay Leno sjálfur ekkert að gera með þessa róbóta en hann er eitt helsta andlit (eða verðmætasta “eign”) fyrirtækisins. Þannig náði hann að vekja athygli á þessu. Ég geri ráð fyrir að það séu þúsundir einstaklinga með álíka sögur sem aldrei hafa náð neinni athygli.

Ég tel reyndar að þessi eltingarleikur höfundarétthafa við myndbönd á YouTube sé í sjálfu sér fáránlegur. Langoftast skaða höfundavörðu myndböndin í engu hagsmuni rétthafa. Oft virka þau einfaldlega sem auglýsingar. Það má ímynda sér að einhverjir tapi hugsanlega þegar um er að ræða heilu þættina. Myndbandið sem Brian Kamerer gerði var hins vegar rétt rúmlega ein mínúta að lengd. Hverju hefði NBC tapað ef þetta hefði verið mínútubrot af Jay Leno sjálfum að segja brandara? Þetta eru “einnota” þættir þannig að þetta væri bara auglýsing. Það eitt og sér að NBC er að eltast við einhver pínubrot sýnir hve mikil vitleysa er í sjálfstýringunni sem höfundarétthafar eru með í þessum málum.