Sjónvarpsfrægir forsetar

Í gærkvöldi lenti ég í undarlegu rifrildi í kommentakerfi DV. Það var undir einhverri frétt um að Sverrir Stormsker hafi verið að gagnrýna að sjónvarpsstjarna færi í framboð.

Játning: Ég er ekki viss um að ég hefði getað tengt saman andlit Þóra og nafn hennar áður en hún fór í forsetaframboð. Nöfn á sjónvarpsfólki eru einfaldlega ekki á mínu áhugasviði. Sjónvarpsfólk þarf annað hvort að vera sérstaklega lélegt eða sérstaklega gott til þess að ég taki eftir því og leggi nafn þess á minnið. Ó, það getur líka hafa verið sérstaklega áberandi sérstaklega lengi og nafnið þannig síast inn.

Í athugasemdarkerfi DV benti ég á að Kristján Eldjárn, Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson hafi öll verið í sjónvarpi. Ég benti líka á að þau þrjú hefðu öll verið í sjónvarpi þegar það var bara ein sjónvarpsstöð og því allar líkur á því að þau hafi verið mun frægari en Þóra er í dag. Ólafur Ragnar var reyndar líka með útvarpsþætti áður en hann fór í sjónvarpið.

Svörin voru ýmiskonar. Það var gefið í skyn að ég væri ekki nógu gamall til þess að hafa vit á þessum hlutum. Ég held að við værum illa stödd ef maður gæti bara tjáð sig um atburði sem áttu sér stað á eigin lífstíð. Síðan kom hið frábæra andsvar að Þóra teldi ekki líklegt að sem forseti myndi hún nota neitunarvaldið. Ég reyndi að benda á að það kæmi umræðuefninu ekki við.

Einn reyndi að halda því fram að Kristján, Ólafur og Vigdís hefðu komist í sjónvarpið vegna fyrri afreka (jafnvel glæstra). Ég benti á að það ætti bara við um Kristján. Ég tel það ekki sérstakt afrek hjá Vigdísi að hafa verið frönskukennari í örfá ár áður en hún fór í sjónvarpið og Ólafur virðist hafa verið 19 ára þegar hann var fyrst í útvarpi (allavega elsta dæmið sem ég finn á Tímarit.is).

Að sjálfsögðu væri Þóra ekki með jafn mikið fylgi og raun ber vitni ef hún hefði ekki verið í sjónvarpinu. En það væri óheiðarlegt að líta framhjá því að Vigdís og Kristján hefðu að öllum líkindum aldrei verið kosin ef þau hefðu ekki komið fram í vinsælum sjónvarpsþáttum. Ég tel líka ólíklegt að Ólafur hefði náð jafn miklum frama í stjórnmálum ef hann hefði ekki verið í fjölmiðlum áður.

Sjónvarp hefur verið breyta í forsetakosningum síðan árið 1968. Við megum alveg ræða þessi áhrif en við megum ekki láta eins og þetta sé eitthvað nýtt.