Tveir áfangar

Þessa daganna tel ég afrek mín helst vera tengd hjólreiðum (tók 18.6 km hring upp í kringum Elliðavatn í dag). Veðrið hefur líka verið gott til slíks. Vonandi meira um það seinna.

En það eru aðrir áfangar sem ég ætlaði að nefna.

Í síðustu viku fékk ég lokaeinkunn fyrir meistaraverkefni mitt í hagnýtri menningarmiðlun, þ.e. Rafbókavefurinn og greinargerðin um hann. Ég fékk níu og er mjög sáttur. Meðaleinkunnin er þá tæplega 8,6 í náminu. Það er næstum að maður sjái eftir að hafa ekki lagt meira á sig til að keyra þetta upp í ágætiseinkunn. Reyndar lagði ég langmest á mig í námskeiði þar sem var bara gefin einkunnin „staðið“. Ég geri ráð fyrir að skólagöngu minni sé lokið nema ef ég fæ tækifæri til þess að fara í launað doktorsnám.

Í dag fékk ég í hendurnar bókina Shaping Virtual Lives. Í henni eru greinar byggðar á erindum flestra þeirra sem tóku þátt í málstofunni „minni“ í Lissabon í fyrra. Það er mikil gleði að vera með í þeirri bók enda er þetta mín „stærsta“ birting sem fræðimaður. Þarna er ég að skrifa í ritrýnda bók m.a. með fólki sem ég las greinar eftir í þjóðfræðináminu og vitnaði jafnvel í í lokaritgerðinni minni.