1000 km hjólasumar

Í vor þegar ég var nýbúinn að skila lokaverkefninu datt mér í hug að hjóla (enda var ég þá ekki búinn að ráða mig í vinnu). Ég hef svo sem áður prufað það en aldrei komið mér almennilega af stað. Ég velti fyrir mér hjólakaupum en lét þess í stað stilla hjólið hennar Eyglóar (sem er aðeins of lítið fyrir mig en alltof stórt fyrir hana).

Ég byrjaði á að hjóla bara hérna í hverfinu og varð næstum ofviða að hjóla upp úr Mjóddinni. Síðan bætti ég alltaf dáltið meiru við og gerði mér hlutina erfiðara.

Stuttu eftir að við komum frá Danmörku ákvað ég að kaupa hjól sem kallast Jamis Explorer og kostaði rétt um 55 þúsund. Það hefur virkað ágætlega þó það hafi lent í töluverðum barningi.

Ég notaði appið Endomondo til að halda utan um hjólatúrana sem var ágætt til að reyna að bæta sig alltaf eða allavega að halda við árangri.

Ég hjólaði hingað og þangað. Nokkrum sinnum upp á Grafarholt mér til skemmtunar. Nokkrum sinnum í kringum Elliðavatn. Reglulega upp að Rauðavatni. Oft niður í bæ. Út um allt eiginlega.

Í júní og júlí hjólaði ég um nokkra vikna skeið um og uppúr 100 km á viku. Ég var smá tíma að ná mér upp eftir að hafa tekið mér hlé í ferðalög en það tókst.

Ég keypti líka barnastól á hjólið og því hefur drengurinn fengið að fara með í einhverja túra.

Fljótlega eftir að ég var ráðinn í vinnu (var ráðinn í lok júní og byrjaði núna fyrir næstum tveimur) ákvað ég að hjóla í vinnuna, það eru um tíu kílómetrar. Það hef ég gert alla daga nema þann fyrsta. Það er reyndar ekki langt tímabil en mér finnst ég hafa verið duglegur miðað við veðrið.

Í júní setti ég mér takmarkið að hjóla 1000 km í sumar. Í leiðinni í vinnuna í morgun rauf ég þann múr. Það tók rétt þrjá mánuði (og þar eru taldar með nokkrar vikur á ferðalagi sem ég hjólaði ekkert). Þetta þykir mér ágætt hjá „byrjanda“. Þetta er líka voðalega gott.

Það má reyndar fylgja með að ég synti líka töluvert í sumar og samanlagt voru það um 54 km á rétt rúmum mánuði.