Maður hefur oft rekist á það undanfarin ár að umdeildar ráðningar komið í kjölfar ferils sem einhver ráðningaskrifstofa hefur stýrt. Slíkar ráðningar hafa síðan oft verið úrskurðaðar ólöglegar. Stjórnvaldið situr þá eftir með ábyrgðina og skaðabótaskylduna.
Stundum hefur maður það á tilfinningunni að ráðningarskrifstofurnar hafi fyrst og fremst það hlutverk að gefa ákvörðun stjórnvalda gæðavottorð. Í raun séu yfirleitt þeir ráðnir sem stjórnvaldið vill ráða en þorir ekki sjálft að taka ábyrgð á.
Ég verð að segja að mér þykir helsta vandamálið vera að ráðningarskrifstofurnar eru ábyrgðarlausar í þessu. Af hverju ætti þeim ekki að vera sama þó þeir velji “rétta” umsækjandann en ekki þann hæfasta? Þeir fá hvort eð er borgað fyrir að velja og ef þeir velja “rétt” fá þeir aftur verkefni frá stjórnvaldinu.
Ef ráðningarskrifstofur væru skaðabótaskyldar í málum þar sem ráðning er dæmd ólögmæt þá væru þær ekki jafn líklegar til þess að mæla með þeim sem stjórnvaldið vill heldur þeim sem er raunverulega hæfastur.
Ég er ekki að tala um að fría stjórnvöld ábyrgð. Alls ekki. En málið er að ábyrgð í þessum skilningi er hvort eð er aldrei fjárhagsleg fyrir einstaklinginn sem tók ákvörðunina. Hún fellur á stofnanir eða sveitarfélög. Í raun eru það saklausir skattgreiðendur sem tapa. Væri ekki réttara að stjórnvaldið sem tók ákvörðunina fái skömmina á sig en ráðningarskrifstofan sem gaf út gæðavottorðin þurfi að borga? Þetta þyrfti reyndar að vera þannig að stjórnvaldið borgi hæfasta umsækjandanum fyrst og innheimti síðan skaðabæturnar frá ráðningarskrifstofunni.
Ég er nokkuð viss um að svona umgjörð myndi tryggja betri ferla í kringum ráðningar.