Thatcher dó. Það skiptir okkur máli af því að hennar stjórnmálastefna mengaði okkar þjóðfélag frá 1991-2009. Ég segi hennar stjórnmálastefna því að mér hefur alltaf þótt íslenskir nýfrjálshyggjumenn hafa litið meira til hennar en t.d. Bandaríkjanna.
Mér finnst þetta ágætt tækifæri til að rifja upp hvað skiptir máli í stjórnmálum. Það sem skiptir mig máli er allt sem Thatcher réðst á: Menntakerfið, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið. Einhverjir geta spurt hvort að atvinnulífið skipti ekki máli líka og svarið er jú en ég held um leið að atvinnulífið þurfi á þessum stoðum að halda til að blómstra. Atvinnulífið þarf líka reglur til að starfa eftir – bankahrunið er jú arfleifð Thatcher. Þessar reglur snúast þá um að fyrirtæki geti ekki farið illa með starfsfólk sitt, viðskiptavini sína eða umhverfið. Umhverfið er líka lykilmál. Það er sama hvernig ég sný hlutunum þá er enginn flokkur, ekkert stjórnmálafólk, sem er nær mér en VG.
Nú vita menn að þegar ég hef verið ósáttur við flokkinn hef ég ekki hikað við að kvarta (þó vælið hafi frekar farið fram á Facebook en hér). Síðast var það augljóslega vanhugsað útspil Ögmundar í netmálum. Hins vegar hef ég í sjálfu sér engar praktískar áhyggjur af því að eitthvað verði úr því máli enda var það eiginlega kjarninn í gagnrýni minni að þetta gæti aldrei virkað. Þetta voru óraunhæfar hugmyndir sem verða skotnar niður þegar á að reyna að vinna úr þeim (sumir hafa eftir á haldið að það hafi verið komið fram frumvarp um málið en Ögmundur var ekki kominn lengra að ætla að skipa nefnd til að athuga málið).
Ég tel líka að ríkisstjórnin hafi unnið stórvirki á síðasta kjörtímabili. Það segja okkur allar tölur. Það er grátlegt að ríkisstjórnarflokkarnir muni ekki njóta þess. Ekki það að ég hafi verið glaður með allt sem var gert en yfir heildina er þetta ekkert annað stórkostlegt. Ég játa að ólíkt mörgum þá læt ég ekki stjórnarskrármálið fara í taugarnar á mér. Í fyrsta lagi skilaði stjórnlagaráð af sér stjórnarskrá sem var vitað að yrði ákaflega erfitt að koma í gegnum þingið og pönkast (fyrirgefðu Valli) síðan á ríkisstjórninni fyrir að klára ekki ókláranlegt mál. Þau spenntu bogann of hátt. Þau hefðu getað komið með góðar tillögur til breytinga á gömlu stjórnarskránni sem hefði verið hægt að koma í gegn en kusu að koma með draumóratillögur. Í öðru lagi hafa efasemdir mínar um stjórnarskránna aukist eftir því sem á leið.
Þau nýju framboð sem hafa komið fram hafa það sameiginlegt, frá mínu sjónarhorni, að vera uppfull af rugludöllum og/eða dramadrottningum þó þar sé líka gott fólk (sem er af einhverjum ástæðum minna áberandi). Þeir sem gengu úr VG vilja kalla sig villiketti en dramadrottningar eru meira lýsandi. Í stað þess að reyna að vinna við að reyna ýta stefnu ríkisstjórnarinnar lengra til vinstri þá fóru þau í fýlu, skelltu hurðum, og gerðu VG almennt erfiðara fyrir að koma fram stefnumálum sínum. Þegar vinstriflokkur er í samstarfi við flokk þar sem sumir þingmennirnir eru í raun hægri menn þá er ákaflega erfitt að koma málum í gegn án þess að gera erfiðar málamiðlanir. Það er skítaverk og þá þarf fólk sem er tilbúið að verða drullugt. Aðrir geta staðið hjá hvítklæddir og heilagir kvartandi yfir lyktinni.
Helsta ástæðan fyrir því að VG hefur ekki náð að gera ríkisstjórnina nógu vinstrisinnaða, umhverfissinnaða og hvaðeina er að þessar hugmyndir hafa ekki nægan stuðning á þingi. Þessar hugmyndir hafa ekki nægan stuðning á þingi af því að það er ekki nógu margt fólk sem hefur kosið VG. Það er því ótrúlega þversagnakennt að ætla að kjósa ekki VG fyrir að koma ekki stefnumálum sínum í gegn af því þetta er (flest) fólkið sem er að berjast fyrir þessum málum. Rökréttast væri að fara út á göturnar og hvetja fólk til þess að kjósa flokkinn. En ætli flestir stuðningsmenn VG séu ekki dáltið eins og ég, þreyttir og pirraðir eftir erfitt kjörtímabil.
Ég játa að það kitlaði mig alveg þegar Píratar fóru af stað því þar var margt gott fólk sem ég veit að eru jafnvel nær mér í skoðunum en flokksfélagar VG. Þetta er frjálslynt fólk, margt til vinstri á stjórnmálavængnum og umhverfissinnað (og meira að segja vísindasinnaðir umhverfissinnar). Ég veit síðan Evrópuþingmenn systurflokka Pírata eru oft frekar vinstrisinnaðir. En það var tilætlunarsemi af mér að ætla að gera þá að vinstriflokki. Íslensku Píratarnir standa fyrir utan hægri og vinstri. Það sem er jafnvel verra er að ég tók fljótlega eftir þarna söfnuðust inn samsærissinnaðir rugludallar þarna. Í mínu kjördæmi er mér t.d. boðið upp á mann í efsta sæti sem hefur ákaflega undarlegar hugmyndir um hlýnun jarðar. Það væri ekkert minna en stórslys að sá maður kæmist á þing.
Það er örugglega nærri áratugur síðan ég fór að tala um það að ég hefði meiri trú á Katrínu Jakobsdóttur en öðrum stjórnmálamönnum. Ekki af því að við séum alltaf sammála heldur af því að ég tel að hún sé heiðarleg og klár. Fyrir síðustu kosningar kostaði hún örugglega flokkinn einhver atkvæði þegar hún sagði að á kjörtímabilinu þyrfti bæði að hækka skatta og skera niður. Fólk varð fúlt þrátt fyrir að það væri fullkomlega augljóst að það þyrfti að hækka skatta og skera niður. Sumir (mjög margir) vilja bara láta ljúga að sér frekar en að heyra sannleikann.