Sigmundur Davíð kom sem frelsari inn í Framsóknarflokkinn sem maður breytinga. Hann náði engum árangri þannig. Fjórum árum síðar er hann kominn í klassískan Framsóknarham og hefur aldrei verið vinsælli. Hann kom einhvern veginn inn í pólitík með ágætis pælingar um borgarskipulag og endar sem formaður Framsóknarflokks.
Nú verð ég að byrja að segja að ég hef ekkert álit á Sigmundi Davíð. Einhver sagði að maður ætti allavega að gefa honum að hann væri snjall en ég bara sé það ekki.
Augljósa ástæðan sem er merkilega Icesave. Ef við hefðum tapað Icesave málinu þá væri Framsókn fylgislaus. Mér er eftirminnilegt fréttirnar kvöldið þegar Icesave dómurinn kom og Sigmundur Davíð tók fram að hann hefði nú ekki verið viss um að við myndum vinna. Ástæðan var sú að hann taldi alþjóðadómstóla, sérstaklega evrópska, mjög vafasama (man ekki orðrétt). Ég man að ég spurði hvar í ósköpunum maður gæti fundið betri alþjóðadómstóla en í Evrópu en því miður heyrði Sigmundur Davíð ekki í mér í gegnum sjónvarpið.
Sigmundur hefur einu sinni tekið gríðarlega áhættu með því að veðja á Icesave málið og hann græddi á því. Núna er hann aftur að fara að veðja með draumkenndum kosningaloforðum og 30% þjóðarinnar ætlar að styðja hann í því. Ég vildi að ég gæti veðjað gegn honum en mögulega verð ég neyddur til að fjármagna veðmálið. Ég tek fram að ég er með verðtryggt íbúðalán og yrði rosalega glaður ef ég gæti trúað því að þetta gengi upp hjá honum. Ég geri ráð fyrir að það séu margir, mögulega verr settir en ég, sem hafa ákveðið að leyfa sér að trúa honum þvert á betri dómgreind.
Núna er spurt um menntun Sigmundar og það er látið eins og það sé voða ósanngjarnt. Ég veit ekki hvort það sé af því mönnum yfirsést hvers vegna er spurt. Það er ekki af því að það skipti máli hvort hann sé í raun búin með allt sem hann segist vera búinn með heldur hvort hann hafi sagt satt. Þegar ég les svörin hans frá því fyrir tveimur árum þá get ég ekki látið þau ganga upp. Ég sé einfaldlega ekki að hann hafi haft yfirhöfuð tíma fyrir öll þessi ár í háskóla frá því að hann útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 2005.
Það er skrýtið þegar menn tala um að ósamlyndi í ríkisstjórnarflokkunum, sérstaklega VG, sé að koma þeim í koll þegar Sigmundur Davíð náði á sama tíma að splundra flokknum sínum og þingflokknum þó hann væri í stjórnarandstöðu. Ef ekki væri fyrir aukið persónufylgi hans vegna Icesave dómsins þá myndum við í dag sjá klofinn Framsóknarflokk en vegna dómsins hafa menn fylgt sér á bak við Sigmund. Hvernig mun þessum manni ganga að stýra ríkisstjórn miðað við þetta? Forystu- og samvinnuhæfileikar eru ekki til staðar.