Nöldur um kosningaáttavita

Ég er núna búinn að taka kosningaáttavitaprófið tvisvar og hef í bæði skiptið rekið mig á spurningar sem ég hef verið ósáttur við og hef jafnvel ekki getað svarað. Margir sem lesa þetta telja örugglega ýmsar athugasemdir mínar smásmugulegt nöldur en mér finnst nauðsynlegt að huga að smáatriðum í svona könnunum. Athugasemdir mínar eru líka misalvarlegar og yfir heildina er ég bara mjög glaður að fólk sé að gera svona tilraunir. Fölsk orðsifjafræði segir okkur að það að gagnrýna sé að rýna til gagns og það má alveg taka athugasemdum mínum þannig.

Til upplýsingar fyrir þá sem ekki vita til þá eru þetta fullyrðingar sem maður getur verið mjög sammála, sammála, hvorki né, ósammála eða mjög ósammála.

Séreignarrétt má ekki skerða nema í algerum undantekningatilvikum

Hér held ég að menn geti bæði verið með ólíkar skoðanir á hvað telst séreignarréttur og hvað telst skerðing. Ég reyndi að finna einfalda og góða skilgreiningu en fann ekki. Ég er viss um að það finnast hægri menn sem telja skatta vera skerðingu á séreign.

Leyfa ætti frjálsa sölu léttvíns og bjórs í íslenskum matvöruverslunum

Mér finnst tal um “frjálsa” sölu óþarft nema að menn eigi raunverulega við að engar reglur ættu að gilda um söluna.

Einstaklingum ætti að vera frjálst að neyta hvers kyns vímuefna svo fremi sem þeir skaða ekki aðra

Þessi setning er fullkomlega órökrétt. Í raun gæti maður sagt mjög sammála við þessu en þó verið á því að banna ætti nær öll vímuefni því þau geta nær öll valdið því að neytandinn skaði aðra. Ef það væri spurt hvort maður teldi að glæpavæðing vímuefna geri illt verra þá er kannski komið eitthvað sem maður getur svarað.

Leyfa ætti starfsemi á borð við vændi, svo lengi sem komið er í veg fyrir mansal og þvinganir

Hér er algjörlega litið framhjá hinu raunverulega ágreiningsefni sem er hvort það sé yfirhöfuð hægt að koma í veg fyrir þvinganir og mansal. Þetta er svipað og með vímuefnin. Það mætti hafa fullyrðingu á borð við þess sem hægt er að vera sammála eða ekki: “Ef vændi er löglegt og á yfirborðinu þá er hægt að koma í veg fyrir mansal og þvinganir”.

Stjórnvöld ættu að láta siðferðisleg úrlausnarefni einstaklinga afskiptalaus

Það hvort það megi stela er siðferðislegt úrlausnarefni sem sýnir hve fráleit fullyrðingin er. Mögulega er átt við eitthvað á þá leið að stjórnvöld eigi ekki að skipta sér að hegðun fólks sem 1) skaðar engan nema það sjálft eða 2) er með fullu og upplýstu samþykki allra sem koma að.

Öllum ætti að vera frjálst að tjá pólitískar skoðanir sínar opinberlega, jafnvel þótt þær séu hatursfullar

Þetta er kannski ekki sérgalli við þessa könnun heldur bara almenn. Mörk tjáningarfrelsis eru almennt, og eiga að vera, á grundvelli sannleiksgildis en ekki meintra tilfinninga þeirra sem tjá þær. Vandinn við það sem er oft kallaðar “hatursfullar” skoðanir er almennt að alhæft er um stóra hópa fólks, sem eru í raun ákaflega fjölbreyttir, á grundvelli vafasamra upplýsinga.