Námsferill Sigmundar Davíðs verður skrýtnari eftir því sem maður skoðar hann meira. Árið 2009 átti hann bara eftir að verja doktorsritgerð sem var tilbúin. Árið 2007 var hann titlaður doktor í skipulagsfræðum í Morgunblaðsgrein (hóf skv. því nám árið 2002 – þremur árum áður en hann lauk BSc gráðu). Árið 2011 hafði hann verið í fimm ár í doktorsnámi við Oxford, tvö ár við rússneskan háskóla og eina önn í Kaupmannahöfn (skv. einni heimild stundaði hann “stjórnmálafræðirannsóknir” þar) – allt eftir að hann útskrifaðist árið 2005 úr viðskiptafræði frá Háskóla Íslands (reynið að raða þessu á umrædd ár). Á samfélagsmiðlinum Linked-in sagðist hann hafa verið í námi við Oxford frá 1995-2007. Sigmundur fékk vissulega styrk til framhaldsnáms við Oxford árið 2004-2005 sem gæti ruglað eitthvað í tímalínunni en ég fatta ekki af hverju hann fékk styrk til framhaldsnáms rúmu ári áður en hann hafði lokið grunnnámi. Ég skil ekki heldur af hverju Sigmundur hefur enga meistaragráðu sem ég hélt að væri, skv. breska kerfinu, skilyrði fyrir því að hefja doktorsnám (oft minniháttar þrep á leiðinni).
Það sem ég þekki til framhaldsnáms, sérstaklega doktorsnáms, þá er ætlast til þess að nemendur skrifi greinar og tali á ráðstefnum. Ég finn ekkert og ekki heldur félagi minn sem leitaði sérstaklega í skráðum verkum eftir nema og kennara við Oxford (það er annars skrýtið að hvergi kemur fram við hvaða Oxford “skóla” Sigmundur var í).
En ég legg til einfalda lausn. Sigmundur Davíð upplýsir einfaldlega hver var umsjónarmaður með doktorsnámi hans (mögulega voru það fleiri en einstaklingur) og þaðan fáum við staðfestingu á því að hann hafi verið langt kominn með doktorsgráðu. Sigmundur má líka endilega benda á fræðigreinar sem hann hefur skrifað og ráðstefnur sem hann hefur talað á sem framhaldsnemi.
Nú er rétt að taka fram að það skiptir í raun engu sérstöku máli hvaða námi Sigmundur hefur lokið heldur hvort hann hafi verið að fegra ferilinn. Það er líka ekki neitt sérstakt afrek að komast í doktorsnám og ég hef þar að hitt ýmsa sem hafa doktorsgráður án þess að hafa sérstaklega virka heilastarfsemi. Þetta eru ekki ósanngjarnar vangaveltur miðað við hve margar ólíkar sögur af birst um námsferil hans.