Reiðhjólauppboð lögreglunnar – fáir góðir dílar

Mig hefur lengi langað til að fara á reiðhjólauppboð lögreglunnar en yfirleitt hef ég ekki frétt af þeim fyrren eftir á. Ég heyrði hins vegar af uppboðinu með góðum fyrirvara og átti auðvelt með að hoppa til í dag.

Þetta var spes reynsla. Fyrst komu barnavagnar og kerrur. Þar virtist helst vera hægt að fá góðan díl. Síðan komu barnahjólin og maður sá fljótlega að boðin voru ákaflega há. Þetta magnaðist síðan þegar fullorðinshjólin fóru af stað.

Maður sá fljótt út að í hópnum var ákveðinn fjöldi af fólki sem var með eitthvað vit á hjólum. Það bauð í hjól frá ákveðnum framleiðendum og fór mjög hátt með boðin. Maður sá líka þegar venjulega fólkið fór stundum nokkuð hátt – að því er virtist komið í stuðið eftir að hafa heyrt hin háu boðin. Þannig að hjól frá miðlungs eða lélegum framleiðendum fóru á allt of háu verði.

Ég stór framarlega og það sem kom mér einna helst á óvart var að fólk var að bjóða í hjól sem það hafði ekki séð í návígi. Það vissi greinilega ekkert hvað það var að fá. Ég sá mörg hjól fara dýrum dómi sem ég sá í návígi að voru ryðguð, með ónýta gíra, bremsur og keðjur. Ég sá fólk líka berjast harkalega um gíralaus hjól á þess að átta sig á því. Sama fólk var sumsé að bjóða í, að því er virtist fyrir sjálft sig, 21 gíra hjól og gíralaus án þess að gera nokkurn greinarmun á því.

Ég hef fylgst með hjólasölum á Facebook og Bland og þarna voru hjólin almennt að fara á allt öðru og miklu hærra verði en á þeim miðlum.

Uppboðshaldarar voru ekki með sérstakt vit á hjólum. Það var gefið upp tegundarheiti, stærðin á dekkjunum og ekkert annað. Þeir sem buðu í virtust heldur ekki gera nein sérstakan greinarmun á stærðinni á stellunum. Fyndnast var reyndar þegar tilkynnt var að verið væri að bjóða upp 42 tommu hjól. Til hliðsjónar má benda á að dekk á fullorðinshjóli er almennt á bilinu 26-29 tommu og stellin eru í minni stærðum.

Einn aðili keypti ótrúlega mörg hjól og bauð í enn fleiri. Uppboðshaldarinn fór fljótt að kalla hann vinnumanninn af því að hann var í vinnugalla.

Sjálfur fór ég ósjálfrátt að rifja upp uppboð í myndum og sjónvarpsþáttum þar sem fólk bauð óvart í með því að klóra sér í nefinu og þess háttar. Einu sinni eða tvisvar datt mér í hug að uppboðshaldarinn hefði túlkað einhverjar hreyfingar hjá mér sem boð en ég bauð ekki í eitt einasta hjól.

Leave a Reply