Ég fékk gefins miða á Grand Budapest Hotel frá Svarthöfða og við Eygló fórum á myndina í gærkvöldi. Við hefðum væntanlega farið hvort eð er enda höfum við gaman af Wes Anderson myndum. Þær eru að minnsta kosti fallegar.
Við tókum reyndar fyrst kvöldmat á TGI Fridays (ákaflega þægilegt þegar maður er að fara í Smárabíó) þó þjónustan hefði mátt vera sneggri. Ég fékk steik (óvanalegt fyrir mig) og var bara sáttur við hana þó hún hafi verið hrárri en ég bað um. Meðlætið var hins vegar frábært, sérstaklega sætu kartöflurnar.
Myndin var auðvitað falleg eins og við var að búast. Það sem mér fannst rosalega áberandi við hana er hve minnti mig á teiknimyndasögu. Lykilatriði voru römmuð inn eins og þau væri á blaðsíðu teiknimyndasögu. Persónurnar voru teiknimyndasögulegar. Fötin þeirra voru í afgerandi litum og útlit þeirra að öðru leyti eins og það væri teiknað.
Auðvitað dugar ekki eitt og sér að mynd sé fallega. Mér fannst t.d. alltaf vanta eitthvað í Life Aquatic. Ég fann ekki fyrir því núna. Ef maður vill aftur tengja við teiknimyndasögur þá fannst mér söguþráðurinn vera eins og Tinnasaga (eða ætti maður að segja Svalur og Valur út frá vikapiltstengingunni?) og, það sem meira er, vel gerð Tinnasaga (mun betri en Tinnamyndin sem mér þótti þó ágæt). Allavega mæli ég með henni.