Bombay Bazaar

Ég komst alveg óvart að því að í Hamraborg í Kópavogi er indverskur veitingastaður sem heitir Bombay Bazaar. Við skruppum þangað í gærkvöldi. Ég fékk mér vindaloo-kjúkling en Eygló kasjúhnetukjúkling. Saman fengum við okkur kjúklingasamósur í forrétt.

Ég var afskaplega hrifinn. Ég er reyndar alveg sökker fyrir indverskum en þetta var vel yfir meðallagi. Vindaloo-kjúklingurinn var ekki jafn sterkur og ég hef fengið hann annars staðar en ég er reyndar þannig að mér finnst það ekkert aðalatriði heldur bragðið almennt. Eygló fannst lítið kasjúhnetubragð af sínum rétti en þótti hann góður. Mér þótti hann reyndar líka mjög góður.

Þjónninn mælti með að við myndum setja kjúklinginn og hrísgrjónin ofan á brauð sem fylgdi með (en ég man ekki hvað heitir) og borða þannig. Það var passaði alveg að það rosalega gott.

Samósurnar sem við fengum í forrétt voru góðar en ekki alveg jafn góðar og á Hraðlestinni (en ég dýrka þær alveg). Hins vegar má alveg taka í reikninginn að þessar voru mun ódýrari en á Hraðlestinni.

Reyndar fannst mér fyrirfram smá óþægilegt að það eru engin verð á Facebook-síðu veitingastaðarins – það er líka óþægilegt ef maður ætlar að panta matinn í síma og taka með heim. Annars finnst mér leiðinleg þróun að veitingastaðir séu bara með Facebook-síður en ekki alvöru heimasíður.

Í eftirrétt deildum við Eygló hvítsúkkulaðimús sem var alveg ótrúlega góð.