Queenplötur dæmdar – 15. Flash Gordon (1980)

FlashÞað er ekkert hægt að segja til um hvaða Queen plata er betri en önnur. Samt ætla ég að skrifa fimmtán færslur um málið. Síðasta færslan verður um þá plötu sem ég tel besta.

Í 15da. sæti er Flash Gordon sem inniheldur tónlistina úr samnefndri mynd. Neðsta sætið fær platan fyrir það að vera ekki “alvöru”. Væntanlega hafa fæstir séð myndina en hún er ógeðslega hallærisleg á fyndin hátt. Hún átti að græða á Star Wars æðinu en missti algjörlega marks. Til að gefa tónlistinni meira líf er töluvert um klippur úr hljóðrás myndarinnar með lögunum – það er á köflum stórfyndið (sbr. frægu útgáfuna af titillaginu þar sem aðal kvenpersóna segist elska Flash en þau hafi bara takmarkaðan tíma til að bjarga jörðinni). Hvernig er síðan annað hægt en að elska plötu þar sem Brian Blessed talar inn á? Fyrir utan titillagið og The Hero rennur platan nokkuð ljúft átakalítið í gegn (og færslan því stutt) en hápunktur hennar er lagið The Football Fight.