Ég keypti Chromecast í Svíþjóð og hef verið að prufa það aðeins. Þetta kemur ekkert í staðinn fyrir Raspberry Pi en alveg sniðugt.
Í stuttu máli er Chromecast pínulítið tæki sem maður singur inn í HDMI rauf á sjónvarpi. Tækið tengist þráðlausu neti og með því getur maður sent efni frá tölvum og snjalltækjum yfir í sjónvarpið. Það eru ýmsar leiðir til að hafa samskipti við tækið. Chromevafrinn er besta leiðin til að tengja því úr hefbundnum tölvum en í snjalltækjum eru til ýmis forrit sem geta tengst.
Ég gat tengt tækið nokkuð auðveldlega við sjónvarpið. Það fær rafmagn í gegnum USB snúru sem ég gat tengt í USB port á sjónvarpinu sjálfu.
Af forritum í snjalltæki má helst nefna YouTube forritið. Sum önnur forrit, s.s. Hulu og Netflix, gera lítið fyrir Íslendinga án þess að setja upp landamæraplat. En YouTube eitt og sér er voðalega sniðugt. Þetta er væntanlega auðveldasta leiðin til að horfa á YouTube í sjónvarpi.
Ég prufaði að senda myndbönd af símanum mínum í sjónvarpið. Ég fann forrit sem heitir BubbleUPnP sem get reddað því á mjög einfaldan hátt. Maður þarf líklega að setja upp einhverja viðbót fyrir Chrome til að gera þetta vel í gegnum vafra því ef maður spilar þau beint í Chrome þá þarf að spila þau bæði þar og í sjónvarpinu sem hægir á allri spilun.
Skrýtnast þykir mér að Chromecast skuli ekki virka með sjónvarpsfjarstýringum eins og t.d. Raspmbc. Það væri oft þægilegt.
En allavega er þetta skemmtilegt leikfang og þá sérstaklega fyrir þá sem eru ekki með sjónvarpstölvur fyrir eða vilja losna við að tengja tölvur beint við beint við sjónvarp.
Mitt eintak kostaði um 5500 krónur í Svíþjóð (raun eilítið minna með Tax Free) en þetta kostar 8-9000 krónur hérna.