Þjófótti vesturfarinn

Þann 2. mars 1939 lést Akureyringurinn Friðrik Kristjánsson í Winnipeg í Kanada. Hann hafði verið kaupfélagsstjóri og bankamaður á Akureyri. Í mars 1910 hvarf hann og var talinn látinn. Í raun hafði hann falið sig hjá dóttur sinni og lét sig hverfa úr landi mánuði seinna. Þá kom í ljós að það voru miklar misfellur í reikningum Íslandsbanka á Akureyri þar sem hann hafði verið útibússtjóri. Þrátt fyrir að allt fékk Friðrik að lifa í friði í Kanada og börnin hans stungu líka af þangað. Um þetta má t.d. lesa í þriðja bindi Sögu Akureyrar.

Ástæðan fyrir því að ég var að lesa mér til um þetta er að ég frétti fyrir nokkrum árum að langafi og langamma, Gunnlaugur og Steinunn, hefðu misst sparnað sinn í bankahneyksli. Núna er ég loksins kominn með söguna nokkurn veginn á hreinu. Samkvæmt heimildum hafði Hannes Hafsteinn bankastjóri lofað að borga öllum til baka féið sem Friðrik stal en ætli langafa hafi ekki skort einhverja pappíra til að sýna fram á inneign sína.

Steinunn og Gunnlaugur og misstu jörð sína þar sem þau gátu ekki greitt fyrir hana. Steinunn lést 42 ára, þegar Guðmar afi var níu ára og þá sundraðist fjölskyldan.

Sú saga sem lýsti fátækt þeirra líklega best er að Steinunn hafi sagt, þegar hún horfði á kött nágrannans lepja mjólk, að hún gæti grátið ofan í skálina.

Friðrik Kristjánsson var týpískur hvítflibbaglæpamaður að því leyti að virðulegt fólk varði hann og einn skrifaði m.a. að það hafi nú verið næg refsing fyrir hann að missa æru sína og flýja land. Sumt virðist aldrei breytast.