Viking kebab – Alltaf best

Viking KebabKebab á Íslandi er alltaf að batna. En besti staðurinn er Viking kebab í Engihjalla (hjá Iceland). Það nær að vera ekki bara gott á íslenskan mælikvarða heldur er það eiginlega það besta sem ég hef smakkað. Ég hef lengi haft þá kenningu að matur þurfi að ferðast til að verða frábært og þetta sýnir það kannski best. Hérna er mið-austurlenskur matur á Íslandi framreiddur af Pólverjum.

Ég byrjaði að stunda staðinn í fyrra. Rakst bara á hann þegar ég ætlaði að sjá hvernig verslun Iceland væri því þeir voru þá alveg að fara að opna í hverfinu. Þetta er bara besti skyndibiti sem er í boði. Engar ýkjur. Það var skipt um eigendur núna í maí en það hafði engin áhrif á gæðin. Yndislegt alveg.

Það er reyndar skrýtnast að við Eygló erum bæði voðalega hrifin af þessu þó hún hafi aldrei verið sérstakur kebab-aðdáandi.

Annars finnst mér líka bara frábært að það sé hægt að fá góðan skyndibita með lambakjöti.