Síðustu vikur hafa verið skrýtnar. Ég hef verið reglulega í fjölmiðlum en það sem er skrýtnara er að Bryndís vinkona mín er á sama tíma á fullu. Hún stendur fyrir málefnið sem ég hef samviskubit fyrir að vera ekki að helga mér af því að ég er upptekinn við að auglýsa #Kommentakerfið.
Sumsé, rétt eftir að #Kommentakerfið fór af stað og Svarthöfðagötunafnið fór út um allan heim þá fer Bryndís af stað með átak að vekja athygli á nauðsyn þess að taka við fleiri flóttamönnum til landsins. Þá er skondin tilviljun að myndin sem birtist hve oftast af henni var tekin af mér um daginn þegar hún fékk að prufa #Kommentakerfið. Stuttu eftir birtist líka tilvitnun í mig, víða um heim, af flóttamannaviðburðinum hennar Bryndísar.
Um daginn spjallaði ég við blaðamann Grapevine um Kommentakerfið og í gær hafði hann samband við mig, hálfmiður sín, og sagði mér að ég hefði ekki komist í blaðið sem var að koma út. Þetta fer á netið þannig að ég er ekkert miður mín. En ég hló þegar ég sá að Bryndís er framan á Grapevine. Ekki af því að mér finnist málefnið hlægilegt enda erum við Bryndís á sömu línu. En Bryndís og flóttamennirnir bömpuðu mér úr prentútgáfunni. Sem er auðvitað fínt af því að það er miklu mikilvægara efni.
Maður hefur þá tilfinningu að Ísland sé pínulítið. Ekki hverfur sú tilfinning þegar maður sér Vilborgu og Emil Hjörvar saman á Bókmenntahátíð að tala við David Mitchell.
En fræga vinkona mín á athugasemd í Kommentakerfinu. Hún dúndraði henni á mig, óvart, þegar ég var að segja henni frá hugmynd minni um spilið. Ég held að hún hafi meiraðsegja náð að setja sína athugasemd út þegar við vorum að spila um daginn.
Ef þið hafið áhyggjur af því að ég sé ekki nóg í fjölmiðlum þá komst ég í viðskiptafréttir Mbl í dag. Það er í fyrsta skipti sem ég er í viðskiptunum.