Kommentakerfið: Fréttahugmyndir um spil og spilahönnuð

icehot-memeNú er rétt rúm vika í að söfnunin mín klárist. Eitt sem ég hef ekki enn notað í kynningu á Kommentakerfinu er sú staðreynd að ég er leikjafræðingur. Ekki leiðinlega hagfræðitýpan (reyndar er þetta væntanlega skemmtilegasta hagfræðin) heldur þjóðfræðitýpan. Ég hef raunverulega eytt gríðarlegum tíma í að lesa mér til um leiki. Ég hef velt fyrir mér hver sé munurinn á spili og leik. Hvað er íþrótt? Hvað er keppni? Hvernig er töfrahringurinn einangraður. Ég hef ekki öll svörin en ég get talað endalaust um þetta. Hápunktur leikjafræði minnar er örugglega meistararitgerð mín um Eve Online en ég hef líka afrekað að gera útvarpsþátt um fyrstu útgáfuna af Monopoly/Matador sem kom út á Íslandi.

Síðan er augljóslega þessi skrýtna staðreynd að ég er með fjórar háskólagráður. Það var auðvitað óvart sem það gerðist en ég held að það séu ekki margir spilahönnuðir með svona margar gráður. Allavega ekki á Íslandi.

Ég hef ekki endilega komið til skila áliti mínu á kommentakerfum almennt. Auðvitað er hægt að lesa það út úr spilinu en það er líka hægt að mistúlka það. Í sjálfu sér pirrar það mig ekki mest að fólk sé dónalegt eða reitt. Ég eyddi nokkrum árum í að vinna verkamannavinnu og menn voru ekki mjög penir í kaffistofuspjallinu. Það sem pirrar mig sérstaklega við kommentakerfin er innihaldsleysið. Við erum hérna með tól sem gæti verið bæði aðhald með valdhöfum og fjölmiðlum en það er ákaflega sjaldan vel nýtt. Góð komment hverfa í ólguna frá þeim sem afrekuðu aldrei neitt meira en að lesa fyrirsögnina. Það er dapurlegt.

Síðan er náttúrulega hin óneitanlega staðreynd að ég hef náttúrulega sjálfur tjáð reiði mína í kommentakerfum (og stafsetningar- og prentvillur eru víða til eftir mig). Ekkert alvarlegt þó eitthvað sem hægt er að taka úr samhengi (og ég hef sett þannig komment eftir sjálfan mig í Kommentakerfið). En ég er vanari að reyna að vera gagnrýninn eða fyndinn í mínum kommentum. Ég reyni nú held ég aldrei að vera fyndinn í alvöru fréttum en aðrar fréttir, og komment við þær, kalla nú á að maður reyni sig við hnyttni.

Leave a Reply