Það þarf eiginlega að svara bloggfærslu Jónasar lið fyrir lið.
1. Ekkert svigrúm verður fyrir halal eða kosher í opinberum mötuneytum.
Slátranir eiga að fara fram þannig að dýrið þurfi að kveljast minnst. Annars þá fatta ég ekki málið. Sonur minn var á leikskóla með stúlku sem borðaði ekki nautakjöt og ég held að það hafi aldrei verið neitt vesen (af hverju er enginn hræddur við matarvenjur hindúa?). Ætli stúlkan hafi ekki bara fengið stærri skammt af grænmetinu? Í stærri mötuneytum ætti síðan hvorteðer að reyna að bjóða upp á fjölbreytni.
2. Ekkert svigrúm verður fyrir bænir og föstur á skólatíma og vinnutíma.
Ég er á því að hlé á vinnu- eða skólatíma sé af hinu góða og ef fólk vill nýta það í trúarbrögðin sín þá ergir það mig lítið. Auðvitað mætti samt ekki t.d. læknir hætta í miðri aðgerð til að fara að biðja eða fangavörður hætta að gæta fanga en einhvern veginn efast ég um að svoleiðis sé raunverulegt vandamál.
3. Ekkert svigrúm verður fyrir trúarlög, sharia, gagnvart landslögum.
Ég átta mig ekki alveg á orðalaginu. Almennt á fólk að fá frelsi til að vera laust undan þeim áhrifum trúarbragða sem það vill ekki. Það minnir mann á að það ætti að aðskilja ríki og kirkju. Allavega erum við laus við guðlastslögin.
4. Ekkert svigrúm verður fyrir feðraveldi, karlrembu og heiðursglæpi.
Flott, nýtum tækifærið til að losa íslenskt samfélag við þessi fyrirbæri líka. Við köllum reyndar heiðursmorðin okkar ástríðuglæpi.
5. Ekkert svigrúm verður fyrir frávik frá vestrænum mannréttindum.
Einn grunnþáttur mannréttinda hlýtur að vera sá að mismuna ekki fólki vegna trúarbragða. Það þýðir að við getum bannað ákveðna hluti en ef okkar boð og bönn eru ekki almennar reglur heldur miðaðar að einhverjum sérstökum þá erum við á rangri leið. Þannig að ef við myndum t.d. banna trúartákn hjá opinberum starfsmönnum þá væri ekki rétt að semja reglur sem hleypa krossum framhjá banninu.
Þetta verður útskýrt fyrir flóttafólki. Við munum hindra, að fólk, sem flýr miðaldir, reyni að koma hér upp þeim sömu miðöldum.
Ef við ætlum að kalla þetta miðaldir þá ríktu nú miðaldir svoltið lengi á Íslandi. Maður gæti líka kallað það miðaldalegt hve langan tíma það tók múslima að fá leyfi til að byggja mosku. En maður er auðvitað að gengisfella miðaldahugtakið töluvert.
Annars hef ég skrifað um íslamófóbíu áður.