Nýju Prúðuleikararnir

Það eru komnir nýir Prúðuleikaraþættir í Bandaríkjunum. Þeir eru strax umdeildir – aðallega fyrir fullorðinshúmor. Þar fer fremst fólk sem virðist ekki skilja muninn á Prúðuleikurunum og Sesamístræti. Annar þátturinn er fyrir börn og hinn var þannig að börn höfðu gaman af honum en misstu þó af miklu í húmornum.

Margir þykjast vita hvað Jim Henson hefði viljað án þess þó að vita nokkuð um hann. Jim Henson bjó ekki til Prúðuleikarana fyrir börn. Hann vildi alltaf ná til fullorðina líka. Hann tók meiraðsegja þátt í fyrstu seríunni af SNL. Það eru líka nokkuð dökkir brandarar í The Jim Henson Hour.

Það eru 25 ár síðan Jim Henson dó. Prúðuleikararnir hafa gert margt síðan þá. Best af því er Jólasaga Prúðuleikarana en margt annað ágætt hefur sést. Sjálfur var ég nokkuð hrifinn af Muppets Tonight. Brandarinn um Nine Inch Nails fær mig ennþá til að hlæja þegar ég hugsa um hann.

Prúðuleikararnir hafa alltaf innihaldið vísanir í kynlíf og fíkniefnanotkun. Þær eru öðruvísi í dag en fyrir 40 árum enda er þjóðfélagið öðruvísi. Þjóðfélagið hlýtur að speglast í persónum sem eru að reyna að ná til samtímans.

Nýju þættirnir eru eftir mann sem heitir Bill Prady. Hann vann með Jim Henson áður en hann dó. Hann ber líklega ábyrgð á því að fyrstu seríurnar af The Big Bang Theory voru ágætar.

Ég er búinn að horfa á alla þrjá þættina sem hafa verið sýndir. Ég hló oft upphátt. Prúðuleikaranir lifa og þeir eru ekki, og hafa aldrei verið, krúsídúllur fyrir krakka.