Ég er ekki bestur í neinu – #Kommentakerfið og ég

KommentakerfiðÞannig að ef maður vill monta sig þá gerir maður það á auðmjúkan hátt.

Þegar ég var 12 ára vildi ég verða heimsmeistari í skák. Ég varð ekki heimsmeistari í skák. Ég varð ekki einu sinni Íslandsmeistari. Ekki heldur Akureyrarmeistari. En mínar einu tvær medalíur á ég úr skákinni.

Stundum er smá 12 ára strákur í mér sem vill verða bestur. En ég er ekki bestur í neinu.

En þegar ég horfi á hvað ég hef afrekað með #Kommentakerfið á síðasta hálfa árinu eða svo þá kemur í ljós að ég get heilmargt.

Ég fékk góða hugmynd um spil. Ég prufaði hana. Ég útfærði hana. Ég bætti hana. Ég hafði næga þekkingu á höfundaréttarlögum til að vita hvað ég mætti gera með hugmyndina. Fræðileg þekking mín á spilum og leikjum kom sér ákaflega vel.

Ég notaði mér þekkingu mínu á samfélagsmiðlum og netinu almennt til að safna fyrir prentun á Karolina Fund. Ég bjó til kynningarmyndband fyrir söfnunina. Ég bjó til kynningarmyndir. Ég kom mér í fjölmiðla. Ég þekkti hvaða frjálsa efni á netinu ég mætti nota (myndefni og tónlist). Ég endaði í um 150% af upphæðinni sem ég ætlaði að safna.

Ég sá sjálfur um grafíska vinnslu á spilinu og sá um öll samskipti við prentsmiðjuna. Auðvitað var öll útlitshönnun í mínímalískum stíl.

Ég setti upp vefsíðu. Ég setti upp vefverslun og er að læra á rafræna bókhaldskerfið mitt. Ég fann út hvernig maður getur tekið við greiðslukortum í vefversluninni með sem minnstum kostnaði. Þess má reyndar geta að vefverslunin og greiðslugáttin eru einu ófrjálsu hugbúnaðarlausnirnar sem ég notast við.

En það sem ég er að reyna að segja er að þó það hefðu margir getað fengið betri spilahugmyndir, hefðu getað safnað meiri peningum, hefðu getað hannað útlitið á spilinu og kynningarefninu mun betur og sett upp flottari vefverslanir þá gat ég þetta allt. #Kommentakerfið slær engin sölumet en einhvern tímann á næsta ári kemst ég í ágætan plús (sérstaklega ef þið hafið farið á vefverslunina og kaupið eintak eða farið í Spilavini eða Nexus). Síðan er ég hokinn af reynslu út af öllum mistökunum sem ég gerði.

Það er rétt að taka fram að auðvitað gerði ekki nákvæmlega allt einn. Ég fékk aðstoð og ráð. Það er líka ákaflega góður kostur að geta beðið um aðstoð. Það er síðan enn betra að hafa fólk í kringum sig sem er tilbúið að hjálpa. Takk allir.

Leave a Reply