Making a Murderer – sekt og sakleysi

NetflixÁður en lengra er haldið þá ætla ég að segja að ég mun segja frá ýmsu sem gerist í þáttunum Making a Murderer. Ef þú vilt halda spennunni við áhorfið þá ættirðu alls ekki að lesa. Ég held bara líka að það sem ég skrifa sé ekkert áhugavert nema að maður hafi séð þættina.

Making a Murderer er alveg ákaflega heillandi heimildaþáttasería frá Netflix. Umræðurnar um þetta á netinu voru orðnar slíkar að ég stökk til og “reddaði” mér þáttunum. Síðan gerðist það í gær, meðan ég var að byrja á næst síðasta þættinum að Netflix varð aðgengilegt á Íslandi. Ég skráði mig strax og kláraði að horfa á þetta með fullri heimild. Sem var voða góð tilfinning.

Ég reyndi að passa mig á að falla ekki alveg flatur fyrir öllu sem kom fram því maður veit að framsetningin skiptir rosalega miklu máli sem og notkun á tónlist sem getur bókstaflega spilað með mann.

Það sem stendur eftir eru nokkur atriði.

Aðkoma lögreglumanna sem höfðu tengst fyrra máli Avery var út í hött og hefði átt að stoppa strax.

Málið gegn frændanum var mjög vafasamt. Játningin hans var ákaflega skrýtin. Það að yfirheyra strákinn án þess að foreldri væri viðstatt var slæmt. Yfirlýsingar fyrsta lögmannsins voru út í hött. Framkoma rannsóknarmannsins var stórskrýtin. Tal þessa sama rannsóknarmanns um djöfulinn var snarklikkað.

Kviðdómakerfið er fáránlegt og fjölmiðlaumfjöllun getur gjörspillt því. Það að hafa kviðdóm úr sama sveitarfélagi var vafasamt.

Saksóknarinn virtist óheiðarlegur í framsetningu sinni. Í lokaræðu sinni gegn Avery kom hann líka með fræga rökvillu sem ég kalla “falska valklemmu”.

Nálargatið á lokinu á glasinu var mjög áhugavert.

Svar saksóknara um að gögnum hefði verið sleppt í þáttunum er ekki jafn sannfærandi maður gæti haldið. Ef maður er til dæmis á því að blóði hafi verið komið fyrir inni í bílnum þá er ekkert ósannfærandi að halda að gömlum svitabol hafi verið nuddað undir húddið til að koma DNA þangað.

Helsta stefið í þáttunum, fyrir utan glæpi, sekt og sakleysi, er stéttaskipting og klíkuskapur. Það sem hafði kannski mest áhrif á mig var hve kunnugleg Avery-fjölskyldan var. Foreldrarnir minntu mig á hjón sem ég þekkti í æsku. Ekki mælskt fólk. Ekki sérlega gáfað. En viðkunnanlegt. En hér er ég örugglega að yfirfæra tilfinningar mínar. Frændinn minnti mig síðan á suma sem ég umgekkst í fyrra starfi.

Stéttaskiptingin kemur í ljós þegar öllum er sama um hvað Avery-fólkið er ásakað en það má ekkert segja um löggurnar og saksóknara. Avery-fjölskyldan er einfaldlega hvítt hyski að flestra mati.

Þó maður hafi horft á næstum því tíu klukkutíma af sjónvarpsefni þá getur maður ekkert ályktað um sekt og sakleysi. Að viti. En kannski er sekt og sakleysi ekki stóra spurningin. Kannski er spurningin um hvort málsmeðferðin hafi verið góð. Ég held að hún hafi ekki verið það. Ef við ætlum að tryggja, ef það er yfirhöfuð mögulegt, að saklaust fólk fari ekki í fangelsi þá þurfum við að passa að málsmeðferð sé alltaf góð.

Ef ég  ætti að álykta um sekt eða sakleysi þá held ég að það séu meiri líkur en minni á að frændinn sé saklaus. Ég get eiginlega ekkert sagt um Avery sjálfan.

Ég held að það sé rangt að ætla að krefjast þess að fólk sé látið laust þó heimildarmynd sé sannfærandi. Ég held ég skrifi ekki undir neinar svoleiðis áskoranir. En ég myndi styðja áskorun um að málið sé tekið upp eða skoðað betur. Síðan er réttarkerfið í Bandaríkjunum þannig að maður ætti kannski helst að gefa peninga til að þessir menn geti ráðið sér lögmenn – ef maður vill að málið verði skoðað betur.

Ein kaldhæðnislegasta niðurstaðan við að horfa á heimildaþáttaröð um morðmál er sú að svona mál ætti ekki að há í fjölmiðlum, hvort sem maður vill dæma fólk sekt eða saklaus.

2 thoughts on “Making a Murderer – sekt og sakleysi”

  1. > En kannski er sekt og sakleysi ekki stóra spurningin. Kannski er spurningin um hvort málsmeðferðin hafi verið góð.

    Algjörlega. Heimildarmyndin sýnir (og það sem ég hef lesið eftir glápið staðfestir) að málsmeðferðin var galin.

    > Ef ég ætti að álykta um sekt eða sakleysi þá held ég að það séu meiri líkur en minni á að frændinn sé saklaus. Ég get eiginlega ekkert sagt um Avery sjálfan.

    Sammála.

Lokað er á athugasemdir.