Fyrir löngu síðan keypti ég Chromecast (gömlu útgáfuna – nýja er víst með betri þráðlausri tengingu en ég hef ekki lent í veseni með það gamla). Það er svona stykki sem tengist í HDMI tengi á sjónvarpi (ekki kaupa nema að þið hafið laust HDMI tengi). Það fæst á Heimkaup (þar sem er líka hægt að kaupa #Kommentakerfið).
Chromecast þarf reyndar að fá rafmagn í gegnum micro-usb snúru. Chromecast tengist þráðlausa netinu (maður stillir það með því að tengja það fyrst við tölvu). Þegar Chromecast er tengt þá er hægt að stjórna því með Chromecast forriti í snjalltækjum eða með viðbót í Chrome vafranum.
Næst er hægt að setja upp Netflix-forrit í snjallsíma (ég þurfti að endurræsa símann til að láta það virka) eða fara bara á Netflix vefinn. Það er auðvelt að skrá sig. Ég fékk frían aðgang í mánuð og stefni á að halda áfram.
Þegar maður er kominn með áskrift að Netflix þá getur maður sent efni úr síma eða vafra með því að smella á Chromecast merkið sem birtist ef allt hefur verið rétt sett upp.