Við höfðum lengi talað um að skreppa til New York. Hvorugt okkar hafði heimsótt Bandaríkin. Við gerðum alvöru úr þessu á fimmtudaginn, afmælisdaginn minn.
Á Leifsstöð fékk ég sérmeðferð. Nafnið mitt var á einhverjum sérstökum lista yfir fólk sem þyrfti að fara í auka leit. Hvort það var handahófskennt eða tengt mínum róttæka bakgrunni. Annars sást að ég yrði skoðaður sérstaklega af því að stóð SSSS á miðanum mínum.
Við lentum á JFK um sjöleytið og tókum leigubíl á Edison Hotel sem er alveg við Times Square. Við höfðum skoðað nágrennið og ákváðum að byrja á að fara á ekta bandarískan keðjustað, Olive Garden. Hann var svona nokkurn veginn eins og maður bjóst við. Góður matur en ekki fínn. Svona bara eins og ég. Mér fannst ég innilega vera kominn til Bandaríkjanna þegar þjónn kom með nýtt kókglas handa mér áður en ég hafði klárað það fyrsta.
Við afrekuðum ekki mikið fyrsta kvöldið. Við röltum aðeins um og komum við í verslun sem heitir Danny’s og er við hliðina á hótelinu. Hann varð fastur áfangastaður meðan við vorum í borginni. Alls konar sérstakur matur þarna. Þetta var annars lengsti afmælisdagur sem ég hef upplifað.
Hótelið var annars ágætt. Við ætluðumst ekki til mikils. Verst var reyndar klósettið sjálft sem var bara eins og öll klósett sem ég sá þarna í New York. Það var mjög lágt og með þessum undarlegu setum. Síðan er vatnsborðið óþægilega hátt í þeim.
Á föstudaginn röltum við frekar stefnulaust. Ég fékk steik í morgunmat. Á aðalútibúi New York Public Library, sem þið munið eftir úr Ghostbusters, var mjög indælt andrúmsloft. Síðan var ókeypis þráðlaust net þar líka. Við tókum síðan smá rúnt um Grand Central Station, sem þið munið eftir úr myndum eins og The Fisher King. Næsta máltíð var úr svona matsöluvagni sem seldi arabískan mat. Þar fékk ég dásamlegt falafel. Stemmingin var svoltið skemmd af undarlegum manni sem minnti mig á Adam Sandler að leika heimskan mann. Sá var mjög aðgangsharður og pirrandi í betli.
Við röltum næst að Empire State Building. Við urðum ásátt um að Eygló færi upp meðan lofthræddi ég myndi rölta um nágrennið, aðallega í stóra en mjög óskipulagða spilabúð. Eygló var mjög glöð með útsýnið úr turninum og ég var mjög glaður með útsýnið af götunni.
Við fórum aftur á hótelið til að undirbúa kvöldið. Þá fórum við á örlítið fínni ítalskan veitingastað sem var með þolanlegum en ekkert spes mat.
Þá var komið að leikhúsinu. Við höfðum farið í leikhúsið snemma um daginn og keypt miða á Vesalingana. Það voru smá vonbrigði að Alfie Boe væri ekki að syngja vegna bakmeiðsla en við keyptum samt miða. Konan í miðasölunni, sem var voðaleg New York týpa, náði að sannfæra mig um að eyða tvöfalt meiru í miða heldur en ég ætlaði. Hún sagðist vera að gefa okkur einhvern afslátt en ég var eftir á að spá hvort hún hefði platað mig. Þegar við komum inn í leikhúsið og var vísað til sætis hvarf þessi tilfinning. Við vorum á fjórða bekk. Leikararnir voru bara rétt hjá okkur og maður gat fylgst ákaflega vel með.
Uppfærslan var voðalega skemmtileg. Hún var smá umdeild í fyrra þegar svartur leikari fékk aðalhlutverið. Hann dó síðan mjög óvænt. En það voru einmitt fleiri svartir leikarar með stór hlutverk. Þar bar helst sú sem lék Éponine. Hún var alveg yndisleg. Sem minnir mig á að mér finnst Les Mis alltaf enda voða dapurlega. Ekkert fer eins og maður vildi. Mér fannst annars meira gert úr trúarlega hlut sýningarinnar en bæði í London og kvikmyndinni. Síðan fannst mér eins og uppáhaldslínuna mína vantaði en hún varðar gildi þess að drepa kónga. Já, pólitíkin minna áberandi og trúin meira áberandi. Samt gaman að sjá menn veifa rauðum fánum á Broadway.
Laugardagurinn byrjaði hægt og rólega. Við fórum á Ellen’s Stardust Diner sem margir hafa mælt með. Þar syngja þjónarnir. Það var ágætt. Maturinn minn var ekkert spes en Eygló var mjög glöð. Það var mjög þröngt þarna og smá bið til að komast að. En þjónarnir sungu einmitt lag úr Vesalingunum.
Næst var stefnan tekin á Central Park. Við röltum þar heillengi um. Það er magnað hvernig garðurinn er rammaður af með þessum háhýsum. Við enduðum á Strawberry Fields þar sem er smá minnismerki um John Lennon sem bjó þarna rétt hjá í Dakota byggingunni (sem sást ekki vel vegna framkvæmda) og var auðvitað myrtur þar. Þarna var einn maður að spila á gítar. Hann bað okkur um að syngja með sem ég gerði, en ekki of hátt samt. Þarna var líka dópaður/fullur/klikkaður náungi sem var eins og maður sá í öllum myndum sem gerðust í New York 1980-1990. Hann lét okkur í friði en ákvað að einhverjir menn með arabískt yfirbragð væru talibanar og tjáði það ítrekað.
Það voru sumsé fullt af New York týpum í New York. Kvikmyndir og sjónvarp ljúga ekki. En það var líka fullt af fólki sem var bara almennilegt og söng, eins og ég, þegar lög með Cyndi Lauper voru spiluð í hljóðkerfum verslana. Síðan hafði afgreiðslufólkið húmor fyrir því þegar ég brosti meðan það skoðaði myndina á greiðslukortinu mínu.
Við Central Park er American Museum of Natural History. Þar ráfuðum við heillengi um. Margt spennandi. Ég náði að fá gæsahúð þegar ég skoðaði nýju stóru risaeðluna og var að ímynda mér hana lifandi. Það hefði verið hægt að eyða gríðarlegum tíma þarna.
Eftir safnið fórum við á indverskan stað sem við höfðum fundið á Google Maps. Sá heitir Savoury. Hann var frekar ódýr, eitthvað síðdegistilboð, og maturinn alveg frábær. Eftir það þræddum við heim á leið aðallega skóbúðir.
Um kvöldið ráfuðum við um Times Square. Ég hafði gaman af Disney búðinni. Það er nefnilega þannig að Prúðuleikararnir eru Disney og Star Wars líka. Þannig að það var meira þar en ég bjóst við fyrir mig. Ég keypti Kermitbangsa handa mér. Það er draumur úr æsku. Síðan eitthvað fyrir drengina líka. Ég sendi síðan Eygló í H&M meðan ég fékk mér aftur falafel. Ég gæti lifað af með því að borða bara úr þessum arabísku matsöluvögnum.
Þegar við komum heim á hótelið kveiktum við á NBC til að sjá Saturday Night Life. Reyndar bara í smá tíma en nógu lengi til að sjá Larry David og Bernie Sanders.
Sunnudagurinn varð að hálftilgangslitlu ráfi. Við ætluðum að fara alveg “Downtown” en það gekk lítið. Við enduðum með að borða á Chipotle sem er svona bandarískur Serrano nema að því leyti að maturinn er ekki góður. Ég verslaði mér föt! Síðan fékk ég afslátt af því að það var dregið uppúr mér að ég hefði haldið einu sinni með Arsenal.
Við ákváðum að gefa niðurbæjardrauminn upp á bátinn og fórum þess í stað að Austuránni. Þar var skemmtilegt útsýni. Við röltum þá áfram þar til við vorum komin framhjá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.
Þá þræddum við okkur í átt að Rockafeller Center. Það var voðalega notalegur staður. Þar var maður með stóra myndavél sem kallaði eftirminnilega á samferðamann sinn sem þvældis eitthvað fyrir “You’re killing my work John”. Síðan fékk ég að taka mynd af þessu fólki öllu með stóru myndavélinni. Það var reyndar hálfgert þema að ég tæki myndir fyrir fólk í New York. Ég á mikinn höfundaréttarfjársjóð sem ég ætti að fara að rukka fyrir.
En 30 Rock er auðvitað höfuðskip NBC. Við kíktum í minjagripabúð. Hún var ömurleg. Bara NBC lógóið og eitthvað Today Show. En konan þarna sá að við höfðum ekki áhuga á þessu og benti okkur á að það væri nýrri betri verslun annars staðar. Við fórum þangað. Ég rölti um og sá ekkert áhugavert. Ég ætlaði að segja Eygló það en þá var hún búin að finna Community-deildina. Ég sá þar Troy & Abed in the Morning könnu og keypti strax. Ég gleymdi meira að segja að skamma afgreiðslufólkið fyrir að reka Dan Harmon og hætta síðanmeð Community eftir að hafa ráðið Harmon aftur.
Það var lítið eftir að afreka annað en að fá sér að borða og taka leigubíl á flugvöllinn. Þar fékk ég enga aukaleit. Ég þurfti hins vegar að nota salerni sem varð til þess að ég hefði helst viljað sótthreinsa mig. Flugleiðir/Icelandair ákvað að við Eygló gætum bara ekki fengið að sitja saman á heimleiðinni. Ég notaði hins vegar hinar ýmsu töflur og Emilíönu Torrini til að vinna á flughræðslu minni. Það gekk allt vel. Við lentum klukkan sex á mánudagsmorgun og ég var kominn í vinnuna klukkan átta.
Það gekk auðvitað vel að rata nema að Broadway ruglaði mig. Stundum er Broadway ein gata og stundum tvær í einu.
New York var eiginlega eins og ég bjóst við. Auðvitað er öðruvísi að sjá þessi háhýsi sjálfur en það kom fátt á óvart. Það besta við New York er auðvitað það sem er best við Bandaríkin. Þetta er fjölmenningarsamfélag. Við getum vælt, réttilega, yfir því að amerísk menning sé að taka yfir allt en það má ekki gleyma að þessi einsleita bandaríska menning er líka alþjóðleg.