Ég er rasisti en…

Það er nær alltaf þannig að ef einhver byrjar setningu á “ég er ekki rasisti en” þá er seinni hlutinn af setningunni rasismi. Sjálfur held ég að rasismi sé í okkur flestum. Þá er ég ekki að tala um rasisma í skilningnum kynþáttahatur heldur tilhneiging til að flokka fólk eftir húðlit og öðru slíku. Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég sá fyrst fullorðinn svartan karlmann en ég man að mér þótti það mjög óvenjulegt. Mér finnst allavega ekki erfitt að skilja hvers vegna “Negri í Þistilfirði” varð frétt á sínum tíma. Ekki kynþáttahatur. En samt svona “við og hinir”.

Ég man ennþá þessa skrýtnu tilfinningu þegar ég kom upp úr neðanjarðarlestinni í Brixton í London árið 2005 og sá ekki einn einasta hvítan mann. Þetta var ekki hræðsla eða andúð eða neitt þannig. Þetta var bara sterk tilfinning að vera öðruvísi. Það er ákaflega hollt að upplifa það af því að maður býr í samfélagi þar sem maður tilheyrir útlitslega meirihlutanum. Í New York fékk ég síðan notalega tilfinningu þar sem maður sá engan meirihluta. Á augnabliki sá maður meiri fjölbreytni í útliti fólks heldur en ég hef séð flesta daga, ef ekki ár, ævi minnar.

Ef ég ætti að botna fyrirsögnina mína þá væri það kannski svona: Ég er rasisti en ég reyni að vera meðvitaður um (meðfæddar?) tilhneigingar mínar til að flokka fólk og passa upp á að það hafi ekki áhrif á dómgreind mína eða það hvernig ég kem fram við fólk. Þetta “við og hinir” á auðvitað líka við um hluti eins og kyn og trú sem og almennt uppruna. Þegar ég hitti Vestmannaeying þá reyni ég  að muna að það er fyrst og fremst einstaklingur en ekki staðalmynd. Það gæti vel verið að einstaklingurinn hafi ekkert gaman af sprangi og vilji ekki fá Árna Johnsen aftur á þing.

Kannski að dæmið um Vestmannaeyinginn hljómi kjánalegt en það er ágætt af því að við könnumst við landshlutaríg – eða jafnvel bæjarhlutaríg. Í grunnskólum Akureyrar lögðum við nemendur okkar eigið landshlutabundna sjibbólet fyrir kennara til að komast að því hvort þeir væru hræðilegir Reykvíkingar.

Það er einhver þörf fyrir að sjá sig sem hluta af hópi og geta litið niður á annan hóp. Sumt er aðallega í nösunum á fólki. Það á reyndar jafnvel við um ákveðna rasista sem maður hefur rekist á í gegnum tíðina. Þeir geta úthúðað ákveðnum hópum sem óalandi og óferjandi en síðan komið manneskjulega fram við einstaklinga sem tilheyra þessum hópum. Svoleiðis fólki er líklega viðbjargandi en það þarf að tala við það.

Ég veit síðan ekki hvort ég á að gráta eða hlæja þegar ég sé fólk sem fyrir fimmtán árum var alveg miður sín yfir Pólverjum sem voru að koma hingað en eru núna farnir að tala um að Pólverjar séu í lagi og vilja helst fá þá í lið með sér gegn múslimunum. Þetta fólk hefur lært eitthvað, líklega með því að kynnast nógu mörgum einstaklingum til að átta sig á að það getur ekki dæmt þennan hóp í heild sinni, en því hefur mistekist að átta sig á því þetta eru allt bara manneskjur. Góðar, slæmar en aðallega bara venjulegar manneskjur. Ekki hópur til að alhæfa um.