Netflix: I Am Your Father

Myndin I Am Your Father fær varla mjög háa einkunn en hún er samt áhugaverð. Umfjöllunarefni hennar er David Prowse, maðurinn sem var Svarthöfði undir grímunni en hvorki rödd hans né andlit sáust – aðrir leikarar fengu þau verkefni.

Í myndinni er fjallað um feril Prowse og aðkomu hans að Star Wars. Það kemur í ljós að þetta er ekki sérstaklega falleg saga og, samkvæmt þeirri söguskoðun sem kynnt þarna, er það ekki honum að kenna. Það er einstaka sinnum sem menn eru ósammála honum um hvað hefði gerst en bæði ná kvikmyndargerðarmennirnir að finna gögn sem styðja útgáfu Prowse og þeir fá einhverjar sögur staðfestar af sökudólgunum sjálfum.

Helsti galli myndarinnar er hve mikið annar leikstjórinn er að trana sér fram í myndinni. Það er yfirleitt bæði óþarft og endurtekningarsamt. Myndin er líka teygð alltof mikið. Hún hefði virkað betur ef hún hefði verið stytt um svona hálftíma.

En ég sá ekki eftir því að hafa horft á hana. Það er samt leiðinlegt að Lucasfilm hafi komið í veg fyrir að við gætum séð það sem hefði verið hápunktur myndarinnar.