Facebook óvinátta mín

Hatursamband mitt við Facebook virðist stundum var algengasta umræðuefni mitt hér. Mér fannst Facebook sniðugt fyrirbæri á sínum tíma. Það var sumarið 2007. Ég var í sumarskóla í Árósum og á leið í skiptinám í Cork. Facebook virtist frábær leið til að halda sambandi við samnemendur mína. Síðan var ég bara að samþykkja og bæta við fullt af fólki. Ég man að ég var á tímabili sá sem átti hvað flesta Facebook vini.

Ég veit ekki hvað breyttist. Ég eignaðist börn og vildi ekki endilega deila sögum af þeim með fólki sem ég þekkti lítið – eða þekkti ekki lengur. Ég tók tarnir við að henda út fólki af vinalistanum mínum. Þær voru misgáfulegar. Ég sé eftir sumum en hef gleymt öðrum. Í dag bæti ég varla neinum við og samþykki ekki nærri alla sem óska eftir tengslum.

Facebook náði líka að mestu leyti að drepa bloggið. Ókei, ekki eitt sín liðs. Þegar bloggið komst í tísku hoppuðu allskyns aðilar inn. Annars vegar voru þeir sem buðu öllu fólki að setja á einfaldan hátt upp bloggsíður og bjuggu um leið til bloggsamfélög sem voru að mörgu leyti lokuð fyrir utanaðkomandi. Hins vegar tóku ýmsir miðlar sig til og soguðu upp vinsæla bloggara. Þeir fengu loforð um græna skóga – og örfáir fengu gull – en síðan dóu þessir miðlar, sameinuðust eða voru keyptir af vafasömum aðilum. Um leið og þessi „rjómi“ af bloggurum hvarf þá vorum við hin eftir og urðum svolítið útundan. Gleymdumst þegar við höfðum ekki lengur virkt samfélag í kringum okkur.

Við héldum að Facebook gæti komið í staðinn fyrir gáttirnar og veiturnar. Við skráðum okkur og deildum efninu okkar þar. Það gekk vel til að byrja með. Facebook sýndi öllum „vinum“ okkar bloggfærslurnar okkar. Það var hvati til að fjölga vinum. Ef við leyfðum hverjum sem er að tengjast okkur gátum við tryggt okkur dreifingu til þeirra. Það sama gilti t.d. um vefrit.

En Facebook þurfti auðvitað að græða peninga. Það voru „læk“ síðurnar sem fengu fyrstar að finna fyrir þessu. Allt í einu hætti fólk að koma af Facebook í sama mæli og áður. Við veltum þessu fyrir okkur og áttuðum okkur fljótt á skýringunni. Facebook var hætt að sýna öllum „lækurunum“ efnið okkar. Þá fórum við að deila efninu kerfisbundið á persónulegu síðum okkar, til vina. En Facebook sá fljótt við því. Einhver algóryþmi á bak við tjöldin reiknaði út að ákveðnir tenglar, ákveðnir vefir, væru verðmætir í huga okkar og hætti að sýna vinum okkar þessar deilingar nema í mjög takmörkuðu lagi.

Við héldum að við værum að nota Facebook en auðvitað var Facebook bara að nota okkur.