Hatur mitt á AirBnB

Ég held að við ættum einfaldlega að banna AirBnB. Þetta er, eins og svo margt annað sem hefur komið út úr hinu svokallaða deilihagkerfi, eitraður kapítalismi.

Áhrifin á Íslandi eru ljós. Við vitum að þetta eru að miklu leyti íbúðir sem voru áður á almenna leigumarkaðinum. Það koma engar íbúðir sjálfkrafa í staðinn. Leiguverð hækkar. Fólk lendir í hrakningum. Börn þurfa að skipta um skóla. Jafnvel oft. Fólk þarf jafnvel að flytja út á land, sem er ekkert slæmt í sjálfu sér ef fólk vill flytja. En þegar fólk neyðist til að flytja langar leiðir missir það ekki bara húsnæðið heldur líka félagslega netið í kringum sig.

Auðvitað eru áhrifin líka gríðarleg á hverfin sem verða á barðinu fyrir þessu. Þjónustan sem íbúðahverfi þarf á að halda hlýtur að minnka – enda eftirspurnin minni. Fólkið sem eftir situr þarf að búa við mikið ónæði. Ef við lítum til samgöngumála þá er verið að þrýsta fólki út af því svæði þar sem auðveldast er að lifa bíllausum lífstíl. Í staðinn byggjast upp hverfi lengst í burtu frá þessum atvinnusvæðum.

AirBnB er einfaldlega eitrað fyrirtæki. Þetta er í raun leið til þess að reka gistiþjónustu án þess að bera sömu ábyrgð og til dæmis hótel eða gistihús. Við sjáum líka þessi eitruðu áhrif í þeim rasisma sem þrífst innan þessa kerfis. Fólk sem er ekki hvítt á hörund á miklu erfiðara með að fá gistingu innan AirBnB. Það er þessi persónulega nálgun sem gefur rasismanum útrás. Ég myndi ekki gista hjá hótelkeðju sem væri uppvís að slíkum starfsháttum – af hverju ættu aðrar reglur að gilda um AirBnB.

Talandi um rasisma þá hefur AirBnB leigt út íbúðir á stolnu landi á Vesturbakkanum. Eftir að það var gagnrýnt lofað fyrirtækið að hætta þessu en bökkuðu síðan og voru með óljós loforð um að gefa hagnað sinn til góðgerðarsamtaka. Þeir sem voru að leigja út þessi gistirými geta ennþá grætt á þýfinu með milligöngu AirBnB.

Þá eru líka ótal sögur um glæpi, svindl og annan viðbjóð sem fær að grassera vegna eftirlitsleysisins sem þrífst innan deilihagkerfisins – sem og sögur af öllum gestgjöfunum sem hafa fengið bakstungur frá AirBnB þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Núna er rétti tíminn til aðgerða. Þessar íbúðir eru meira og minna tómar og ólíklegt að það komi straumur ferðamanna á næstunni til að fylla þær. Það væri mikið betra fyrir samfélagið ef þær færu aftur í almenna útleigu. En þá þyrftu leigjendur líka að geta treyst því að ef ferðamannabólan færi aftur að blása út þá væri þeim ekki vísað strax aftur út.