Ég horfði á heimildaþáttaröðina Empire (2012) með Jeremy Paxman. Þar fjallar hann um breska heimsveldið og arfleifð þess.
Það sem vakti strax athygli mína á fyrstu mínútunum er hvernig skjátextinn var. Aðaltungumál þáttanna var enska en það var tekið viðtal við ýmsa þegna heimsveldisins sem töluðu oft eigin tungumál. Sama hvert tungumálið var þá stóð bara í skjátextanum “talandi útlent tungumál”. Ég veit ekki hverjir sáu um þessa textun en framleiðendurnir hefðu átt að tryggja að hún væri í lagi. Það að endalaust um útlend tungumál virkar voðalega heimsveldis- og/eða nýlendusinnað.
Annað dæmi frá fyrstu mínútunum var frá pólóleik á Indlandi. Þar heyrist í lýsingu á leiknum sem er á ensku. Það er allt þýtt vel og vandlega þar til nöfn leikmanna koma fram. Þá stendur bara “(mumbles)”. Nafnið var ekki muldrað – það var bara “útlenskt”. Ég öfunda skjáskrifarann ekki að þurfa að reyna að rita nöfn á tungumáli sem hann skilur ekki (kannski það hefði verið hægt að finna Indverja sem talar ensku til að skrifa skjátextann?) en þetta er voðalega aumt.
Af þáttunum sjálfum er það að segja að þeir líta út eins og þeir séu gagnrýnir á breska heimsveldið svo lengi sem þú þekkir ekki sögu þess. Þá tekurðu eftir að heilu þjóðarmorðin eru hunsuð eða fljótafgreidd á sama tíma og mikil áhersla er lögð á uppreisnir og hefndaraðgerðir innfæddra gegn breskum yfirráðum.
Paxman eyðir líka töluverðri orku í að benda á góð áhrif sem breska heimsveldið hafði. Fyrst virkar það bara eins og hálfgert grín en síðan verður það bara aumkunarvert.
Ég lærði alveg eitthvað af þessum þáttum en ég get varla mælt með þeim. Þetta virðist helst ætlað að reyna að útskýra fyrir Bretum, sem ekki þekkja söguna, að breska heimsveldið hafi ekki verið frábær hugmynd án þess þó að ögra þeim um of.