Er næsta ár árið sem við getum sleppt tvöþúsund?

Ég var að skrifa vísun í árið 2012 og ég hugsaði með sjálfum mér: Gæti ég skrifað, eða sagt, bara ’12. Ekki séns. Við höfum ekki getað gert svoleiðis síðan ’99. Það væri gaman að vita hvað stoppar okkur. Ég veit það bara ekki nákvæmlega.

Vissulega er það þannig að þegar ég segi bara tólf þá líður mér eins og ég sé að tala um tíma dags frekar en ár. Það er líka þannig ef maður ætlar að tala um árabil. Ef maður skrifar eða segir 12-14 þá líður manni eins og maður sé að taka sér langan hádegisverð en ekki að tala um tímabil í lífi manns. Ef maður segir árin 12 til 14 er það eins og maður sé að tala um unglingsár Jesú.

Þegar er verið að tala um þá sem fæddust fyrstu níu ár aldarinnar, sérstaklega þegar þau sjálf eru að tala, þá eru þetta núll-fimm módel, núll-sex módel og svo framvegis. Kannski að maður ætti að benda þeim á að núll-núll-sjö módel sé svalara en bara núll-sjö en þá þyrfti maður líka að útskýra fyrir þeim hver þessi James Bond sé.

Ég er ekki viss um að þetta kerfi virki jafnvel á fyrsta tuginn. Er einhver ellefu módel? Hljómar ekki vel. Ég veit ekki hvernig yngsta kynslóðin reddar sér. Kannski hefði ég átt að spyrja afa mína og ömmu. Ekki ömmur.

Virkar ’20? Það er vissulega ennþá á klukkustundabilinu en ekki alvarlega. En ég held ekki. Ég held að það séu enn smá óþægindi í máltilfinningunni. Tuttugu hljómar ekki eins og ár.

Ég held að næsta ár sé árið. Hægt og rólega verður auðveldara að tala um fortíðina. Þau sem fæðast á næsta ári geta andað rólega og sagt að þau sé fædd tuttugu og eitt. Miklu betra sko. Ég hefði getað spurt Siggu ömmu út í þetta. Hún fæddist ’21 og var örugglega ákaflega fegin.

2 thoughts on “Er næsta ár árið sem við getum sleppt tvöþúsund?”

  1. Hefurðu spáð í hvað ‘ þýðir? Gæti það þýtt 1000 og þar af leiðandi ættum við að geta notað t.d. ”20 fyrir 2020…

Lokað er á athugasemdir.