Guðmar afi minn batt inn bækur og tímarit á sínum efri árum. Meðal þess sem hann batt inn voru gömul tölublöð af Heimilistímanum (1974-1981). Af einhverjum ástæðum fór ég í gegn um öll þessu bindi. Ég las ekki allt en ég las margt. Ég hef væntanlega verið 11-13 ára.
Mér datt núna í hug að kíkja aðeins á hvað væri að finna í Heimilistímanum. Ég á þessi bindi frá afa en þau eru í geymslu þannig að ég kíkti á Tímarit.is. Ég var ekki kominn langt af stað þegar ég fór að fylgjast með bröndurunum.
Það sem maður tekur fyrst eftir er að það er eiginlega ekkert fyndið þarna og stundum sér maður hvernig þýðendur hafa klúðrað bröndurum (sem voru ekki endilega fyndnir til að byrja með). Það væri hægt að flokka brandarana í örfáa flokka. Heimsk/heimskir/heimskar/ömurleg/ömurlegar/ömurlegir eiginmenn/eiginkonur/börn. Kynlíf. Drykkjuskapur.
Einu brandararnir sem mér finnst nálgast fyndni eru þeir sem ekki falla í þessa flokka. Ykkur til… skemmtunar(?) hef ég klippt út myndbrandarana úr fyrstu fjórum tölublöðum Heimilistímans.