Ella-málið: Úr lífi alþýðunnar

Ég rakst á eftirfarandi grein á Tímarit.is. Þetta eru undir fyrirsögninni “Úr lífi alþýðunnar” í Lesbókinni. Smjörhól hennar ömmu kemur við sögu en það er þó tveimur árum eða svo áður en forfeður mínir fluttu þangað.

Ég veit ekkert um höfundinn (Jón Sigfússon) en ég á erfitt með að skilja þetta öðruvísi en að þarna sé reiður og kaldhæðinn tónn vegna aðfarar yfirvalda að þessu fátæka fólki. Ég varð reiður að lesa þetta og gat ekki annað en deilt þessu.

ELLA-MÁLIÐ

Eftir Jón Sigfússon, Ærlæk

FRÁ VORI 1892—94, var vinnumaður á Ærlæk hjá þeim hjónum Sigfúsi Einarssyni og Oddnýju Jóhannesdóttur, er þá bjuggu þar. Hét hann Elías og var Jónsson.

Mun hafa verið fæddur á Árholti, í kringum 1870 [11. júlí 1866 – 23. jan. 1941]. Hjá foreldrum sínum ólst hann upp og síðar vandalausum, í sárri fátækt og mun í æsku hafa verið með beinkröm, sem hann bar menjar um alla ævi síðan, því hann var með knýttar og bæklaðar hendur. Var hann því aldrei fullfær til allrar vinnu eða neinn afkastamaður. En natinn var hann við að gæta kinda og góður yfirstöðumaður, en í þá daga tíðkaðist að standa hjá fé í haga, ef beitt var og nokkuð að veðri. Elías var því frekar eftirsótt hjú, enda húsbóndahollur, notinvirkur og trúr í bezta lagi.

Eignir átti Elías litlar nema kindur, sem hann hafði á kaupi sínu og gáfu honum dálitlar tekjur. Þær munu hafa verið um 20 alls.

Almennt var Elli, en svo var hann oftast nefndur, talinn fremur einfeldningur, en þó er mér næst að halda, að hann hafi verið í meðallagi gefinn, ef hann hefði hlotið sæmilegt uppeldi, en því var ekki að heilsa, því engrar hafði hann notið uppfræðslu nema aðeins það allra minnsta, sem komist var af með til að ná fermingu.

Þegar hér var komið sögu, var Elli rúmlega hálfþrítugur og vinnumaður á Ærlæk, eins og áður segir. Samtíða honum þar var kvenmaður einn á bezta aldri, er Kristín hét og var Gunnarsdóttir, kölluð Krita. Ævi hennar hafði verið svipuð og Ella, nema ef til vill enn hörmulegri, ef verra gat verið. Ung hafði hún misst móður sína. Var umkomuleysið sárt, en fátækt og allsleysi fram úr hófi, en uppfræðsla engin. Enda var hún á hrepp eftir að faðir hennar, Gunnar á Smjörhóli lézt, og sjálfsagt haft misjafna aðbúð.

Fram að þessu höfðu menn gjört sér lítið títt um hagi þeirra Ella og Kritu, og saga þeirra lítið skráð á bókfell. En nú verður snögg breyting á þessu. Það sem sé gerist sá atburður, sem bæði fyrr og síðar hefir átt sér hliðstæður, án þess að allt hafi verið sett á annan endann. En það var það, að Krita verður þunguð af völdum Ella. Eins og ærlegum og góðum föður sómdi, hafði Elli nauðsynlegan undirbúning vegna þessarar væntanlegu barnsfæðingar. Meðal annars var hann búinn að útvega dvalarstað handa barninu o. s. frv., enda hefði Elli vel haft sig fram úr því, að ala upp barnið af sjálfsdáðum. En þetta átti ekki þannig að fara. Réttvísin tók ráðin af Ella og stjórnaði af meiri vizku og líklega réttlæti.

Einhvern nasaþef fékk hreppstjórinn, sem þá var Björn Jónsson í Sandfellshaga, af því hvernig komið væri, og hans fyrstu viðbrögð voru þau, að skipa ljósmóðurinni í sveitinni að rannsaka málið. Man eg að ljósmóðirin kom að Ærlæk og sló sér fljótlega á tal við Kritu og lét talið berast að klæðnaði hennar; spurði meðal annars hvort hún væri í vaðmálsskyrtu, en Krita sagðist vera í léreftsskyrtu næst sér. Því vildi yfirsetukonan ekki trúa og þráttuðu þær um þetta nokkra stund, þangað til Krita stóðst ekki mátið lengur og til að sanna mál sitt reif skyrturnar upp um sig. En yfirsetukonan athugaði það sem yfirvaldið hafði fyrirskipað.

Hér kemur útdráttur úr dómsmálabók Þingeyjarsýslu, frá þeim tíma, um þetta Ella-mál:

Árið 1893, þriðjudaginn 18. júlí, var réttarhald að Ærlæk, til að hefja rannsókn í tilefni af bréfi hreppstjórans í Skinnastaðahreppi, dags. 15. júní sama ár. Segir þar að Elías sé 27 ára gamall, hafi flutzt vistferlum í Ærlæk 1892. Játar Elías að hafa haft samræði við Kristínu: Að réttarhaldinu loknu er Elíasi bannað að hreyfa sig nokkuð af heimilinu fyrst um sinn, en vera alltaf til staðar þangað til ráðstafanir verði gjörðar.

Árið 1893, föstudaginn 21. júlí, var lögregluréttur settur og haldinn að Ærlæk af settum rannsóknardómara Einari Benediktssyni, til að halda fram rannsókn þeirri er hafin var með réttarhaldi að Ærlæk. Ber Elías allt það sama um samræði við Kristínu. Þess er getið að Elías sé einfaldur og svari spurningum bjánalega. Sjálfur játar hann að hann hafi oft fundið til þekkingarleysis síns og einfeldni, enda aðrir notað sér það í viðskiptum við hann.

Einnig er Sigfúsi Einarssyni húsbónda Elíasar uppálagt að láta ekki Elías ganga úr greipum réttvísinnar.

Þennan sama dag var héraðslæknirinn, Björn Blöndal á Sjávarlandi, kvaddur til að rannsaka og gefa vottorð um andlegt ástand Elíasar og Kristínar.

Árið 1893, mánudaginn 28. ágúst, var settur aukaréttur af Einari Benediktssyni á Skinnastöðum.

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Verjandi málsins var sr. Þorleifur, sem þá skilaði aftur skjölum málsins, sem voru mörg og ýmiskonar, um hegðun og andlegt ástand Elíasar og Kristínar, og ennfremur skírnar- og fermingarvottorð.

Eftir að skjöl öll höfðu verið lesin upp, lýsti sr. Þorleifur því að hann hefði ekki fleira fram að færa, en það varnarskjal, sem hann hefði lagt fram.

Var þá málið tekið upp til dóms.

Árið 1893, mánudaginn 2. okt., var — aukaréttur Þingeyarsýslu settur og haldinn á skrifstofu Þingeyarsýslu að Húsavík, af sýslumanni Benedikt Sveinssyni [faðir Einars].

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Dómurinn:

Það er löglega sannað í máli þessu með skýlausri eigin játningu ákærða í sambandi við önnur rök, sem upplýst eru, að hann hefur tvívegis á síðastliðnu og yfirstandandi ári framið holdlegt samræði með hreppsómaganum Kristínu Gunnarsdóttur, sem þá ásamt honum var til heimilis á Ærlæk.

Eftir langt mál var svo dómurinn uppkveðinn.

Því dæmist rétt vera:

Hinn ákærði, Elías Jónsson, vinnumaður frá Ærlæk, á að sæta eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi. Einnig á hann að borga allan af máli þessu löglega leiðandi kostnað, þar á meðal 4 krónur til hins skipaða talsmanns, Þorleifs prests Jónssonar á Skinnastað.

Dóminum ber að fullnægja með aðför að lögum.

Ben. Sveinsson.

Víkur nú sögunni aftur til dagsins 21. júlí. Eftir að hinn setti rannsóknardómari, Einar Benediktsson, hafði lokið yfirheyrslunni yfir Ella og Björn Blöndal athugað andlegt ástand hans, var ferðinni beint að Smjörhóli. En þar höfðu hreppsyfirvöldin komið Kristínu fyrir til dvalar, til að fjarlægja hana frá Ella. Í förinni voru leiðtogi fararinnar Björn hreppstjóri, Björn læknir Blöndal og setti dómarinn Einar skáld Benediktsson ásamt fylgdarmanni sínum Ólafi Sveinar Hauk. Er ólíklegt að í annan tíma séu sagnir af að fríðari eða tignari fylking hafi kvatt dyra á Smjörhóli.

Ekki er mér kunnugt um hvað þar hefur gerzt, þó sjálfsagt geymist eitthvað um það í réttarskjölum frá þeim tíma, ef þau eru þá ekki glötuð. En fundi Kritu hafa þeir að sjálfsögðu náð. Bárust fréttir um það eftir lækninum, að langt myndi þess enn að bíða að Krita yrði léttari.

Skjöplast þótt skýr sé, segir gamalt máltæki, og mátti heimfæra það upp á Björn lækni, því ekki var heimsókninni fyrr lokið og menn riðnir úr garði, en Krita tók joðsótt og ól barnið, sem svo mikið tilstand hafði verið út af. Það var meybarn, sem síðar hlaut í skírninni nafnið Jóhanna, fædd 21. júlí 1893.

Ævisaga Kritu varð ekki löng úr þessu, því hún lézt á Smjörhóli sama ár, þann 7. október. Varð það með þeim hætti að hún fór út á hlað til að sækja barnarýur, sem breiddar höfðu verið til þerris upp á snúru. Þegar dvaldist að hún kæmi inn aftur og farið var að gá að, lá hún örend á hlaðinu.

Talin hafa orðið bráðkvödd. Vitnaðist þó síðar, þó aldrei yrði það hljóðbært, að banameinið var engu að síður „hor og ófeiti“, eins og það er orðað í kirkjubók Skinnastaðasóknar, um þá sem létust í móðuharðindunum 1785.

Mikið höfðu yfirvöldin garfað í þessum málaferlum og sýnt mikinn dugnað, en í öllum þessum önnum virðist hafa gleymzt að athuga um að barnsmóðirin hefði sæmilegt fæði og aðhlynningu, annars hefði Krita sennilega ekki orðið hordauð.

Samkvæmt dómsniðurstöðu réttvísinnar átti Elli að afplána sök sína með eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi og greiða allan málskostnað.

Fangelsi var þá ekki nær en á Akureyri og þangað fór Elli, en ekki lifði hann eingöngu upp á vatn og brauð, eftir því sem honum sagðist sjálfum frá. Hann lét hið bezta yfir verunni. Mat hefði hann fengið að borða, bæði mikinn og góðan, þann sama og sýslumaðurinn borðaði sjálfur og allir voru honum góðir. Ekkert þurfti hann að gera á daginn, en rólaði sér í hengirúminu eins og hann hafði löngun til. Er ekki að efa að Elli sagði satt frá. Mun almennt hafa verið litið svo á, að hann hefði ekki með sök sinni unnið til þeirrar harkalegu meðferðar, sem réttvísin ákvað honum. Aldrei fyr á ævi sinni hafði Elli farið eins langa ferð eða séð sig eins mikið um, svo þó hann væri alla daga manna yfirlætislausastur, þá hafði hann séð svo margt nýstárlegt í þessari ferð, að hann vitnaði stundum síðar á ævinni til hennar og hóf þá venjulega mál sitt eitthvað á þessa leið: „Það var þegar eg fór inneftir“.

Langt um verra en tugthúsið var þó það, að missa allar eigur sínar. En þær voru allar teknar af Ella upp í málskostnaðinn, svo þegar hann vorið eftir (1894) fluttist frá Ærlæk ofan í Kelduhverfi í vinnumennsku til Þórðar Flóventssonar bónda í Krossdal, var hann slyppur og snauður. Átti þá ekki annað en fötin sín og vasaúrið sitt, sem yfirvöldunum hafði láðst að taka af honum. Um úrið sitt þótti Ella fjarskalega vænt, sem von var, enda var það honum svo nauðsynlegt, þar sem hann ætíð var einangraður frá öðrum og fjarri bæ við kindurnar; lét hann sér líka mjög ant um það og hafði í úrkassa, sem hann svo vafði vasaklút eða einhverju öðru utan um og bar það þannig í vasanum á vestinu sínu. En lánið getur verið hverfult og í þetta sinn reyndist það svo.

Yfirvöldin uppgötvuðu fljótlega yfirsjón sína og fundu ráð sem dugði. Þeim hugkvæmdist það, að Elli myndi einhvern tíma koma í orlofsferð austur í Öxarfjörð til að finna kunningjana og sjá litlu dóttur sína. Ef svo færi, var ferjumaðurinn á Ferjubakka fenginn til að ná úrinu af honum. Þessi ráðagerð heppnaðist. Ferjumaðurinn náði úrinu af Ella og það komst í hendur hreppsnefndaroddvitans, sem falið hafði verið að koma því í verð. Er ekki að orðlengja það, að oddvitinn hampaði úrinu framan í hvern sem var og bauð til kaups fyrir eitthvað, hvað lítið sem væri, en enginn vildi kaupa. Virtist svo sem menn hefðu einkennilega litla löngun til að eignast þetta úr. Varð endirinn sá, að nokkru seinna átti Þórður Flóventsson, húsbóndi Ella, ferð hér austur yfir Jökulsá og keypti þá úrið á 4 krónur og færði Ella það.

Eftir þetta fluttist Elli aldrei úr Kelduhverfi. Var vinnumaður á ýmsum bæjum, þangað til ævinni lauk í hárri elli. Munu allir ljúka upp einum munni um það, að Elli hafi verið maður meinhægur, grandvar, trúr og hollur sínum húsbændum, enda þurfti réttvísin aldrei að hafa hendur í hári hans, utan þetta eina sinn.

Jóhanna Elíasdóttir ólst upp á góðu heimili, þar sem hún naut sömu ástar og umhyggju eins og hún hefði verið ein af fjölskyldunni, enda mat hún það að verðleikum. Hún var svo trygglynd, að hún batzt vináttuböndum við. fjölskylduna, sem entust ævina út.

Meðal annars heimsótti hún þetta vinafólk sitt einu sinni á ári allt fram á síðustu ár. Alla ævi var Jóhanna veikbyggð og heilsutæp.

Naut hún sín þess vegna miður en skyldi. Jóhanna giftist og bjó með manni sínum á jörð í Kelduhverfi um tugi ára, eða allt til dánardægurs.

Með manni sínum eignaðist hún tvö börn, sem bæði eru á lífi, pilt og stúlku. Þeim gekk vel að læra og eru mannvænleg, engu síður en fólk er almennt. Bæði eru þau flutt úr fæðingarsveit sinni. Hann er búfræðingur að menntun. Hún er húsfreya í sveit.