Sigmundur Davíð birti nú um helgina langa og heimskulega grein um menningarbyltingu. Það væri hægt að taka hana fyrir lið fyrir lið og benda á rangfærslur og útúrsnúninga (og arfaslakar hugtakaþýðingar). Kannski að einhver nenni því. Það sem mér finnst mikilvægara er að velta fyrir mér hvers vegna Sigmundur er að skrifa þessa grein.
Þó Sigmundur eyði töluverðu púðri í að fordæma svokallaða fórnarlambamenningu þeirra sem berjast fyrir réttindum minnihlutahópa þá snýst grein hans að miklu leyti í að mála valdamikla aðila sem sem fórnarlömb.
Kröfulisti starfsmanna Stanford háskólans til stjórnenda sem átti að kosta 25 milljónir dollara “slær þó líklega flest met” að mati Sigmundar. Verst er auðvitað að “Stanford-háskóli er sem stendur í miklum fjárhagsþrengingum” að sögn Sigmundar. Samkvæmt tölum háskólans sjálfs þá átti hann um 28 milljarða dollara í fyrra. Það gerir Stanford fjórða ríkasta háskóla Bandaríkjanna.
Sú hugmynd að eyða einum tíunda úr einu prósenti auðæfa skólans til þess að bæta fyrir og koma í veg fyrir kerfisbundna mismunun er að mati Sigmundar hið raunverulega hneyksli.
Hvers vegna er Sigmundi svona í mun að mála hina ríku og valdamiklu sem fórnarlömb? Er það kannski fyrst og fremst stéttarvitund hans sjálfs? Er það vegna þess að jafnrétti er ógn við forréttindi hans sjálfs? Auðvitað, en ekki bara það.
Greinin er hluti af almennu menningarstríði hægri manna. Það snýst um að blása upp ákveðin mál, snúa út úr þeim og reyna að koma í veg fyrir samstöðu almennings.
Sigmundur er alveg miður sín yfir því að svört líf skipti máli. Öll líf skipta máli. Ég geri fastlega ráð fyrir að þegar minning sjómanna er heiðruð þá mæti Sigmundur með mótmælaskilti til að benda á að það séu ekki bara sjómenn sem drukkna.
Kynþáttahyggja hefur í gegnum tíðina verið eitt helsta tól valdastéttarinnar til að koma í veg fyrir samstöðu almennings og það sést einna best í Bandaríkjunum. Þetta er gert með því að hræða hina hvítu með því að svartir eða “Mexíkanar” (af hinum ýmsustu þjóðernum) séu að koma til að stela frá þeim vinnunni eða nota velferðarþjónustu ætlaða þeim. Í stað þess að mynda samfylkingu hinna lægra settu þá fara þessir hópar er að berjast – á meðan “arðræninginn situr og hlær”.
Við þurfum að skilja að réttindabarátta minnihlutahópa er barátta okkar allra. Samstaðan er eina leiðin til að tryggja okkur öllum betra líf þannig að við þurfum að gefa skít í fórnarlambamenningu hinna ríku og valdamiklu.
Skemmtilegt að Harvard skilaði til baka Covid-ríkisaðstoð eftir að Trump þrýsti á það opinberlega, sem sýnir náttúrulega bæði að skólinn er ekkert í rosa þrengingum og að Trump og hans fylgjendur eru sjálfir að stunda grimmt menningarstríð. Það er hægt að leika sér nánast endalaust að því að benda á hversu einhliða greining Sigmundar Davíðs er.
Sjá https://www.independent.co.uk/news/world/americas/harvard-coronavirus-stimulus-money-trump-aid-funding-university-a9479161.html