Ég er hópnum Málspjall sem Eiríkur Rögnvaldsson setti af stað. Þar ákvað ég að spyrja um nokkuð sem ég hef lengi velt fyrir mér. Það er þessi tilhneiging að setja G-hljóð aftan við orð eins og þú, þau, þó og svo. Ég geri það jafnvel stundum sjálfur.
Þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Ég man mjög sterkt eftir þessu G-hljóði hjá Guðmari afa til dæmis. Við vitum líka að þessi orð hafa gjarnan verið til vandræða þegar á að kenna börnum stafsetningu – þóg að það sé ekki jafn áberandi og áður fyrr.
Eiríkur svaraði þessu:
Ég þekki þetta úr “þaug” og “svog” en ekki úr hinum orðunum þótt mér finnist trúlegt að þau hafi fengið sambærilegar myndir. Þetta var mjög algengt áður fyrr en ég heyri það sjaldan núna – eða tek lítið eftir því a.m.k. Í Menntamálum 1947 er lögð áhersla á þjálfun sjónminnis og sagt: “Sé það gert, er alveg óhugsandi, að 12—13 ára börn skrifi þaug og þettað — o. fl. svipaðar vitleysur.” Án þess að ég hafi nokkuð skoðað þetta finnst mér líklegt að ástæðan sé sú að g-inu sé skotið inn til að forðast svokallað “hljóðgap” þar sem tvö sérhljóð koma saman. Á eftir “þau” fer mjög oft “eru” og þá koma saman tvö sérhljóð sem tilhneiging er til að forðast í framburði. Sama gildir um hin orðin. Með aukinni stafsetningarkennslu hefur sennilega dregið úr þessum framburði.
Þegar ég var í þjóðfræðinni lagði ég töluverða áherslu á kenningar um munnlega hefð. Þessar hugmyndir áttu upprunalega að vera upplagið í meistararitgerðinni minni. En þetta varð líka til þess að ég fór að skilja þá gjá sem er milli ritaðs máls og talaðs.
Ritað mál verður alltaf mjög einfölduð útgáfa af töluðu máli. Stafsetning endurómar þetta með því að staðla orð sem eru borin fram á marga ólíka vegu. Við skrifum banki en ekki bánki af því að íslenskufræðingar ákváðu að það væri réttara. Þetta er auðvitað ekki sér-íslenskt og í öðrum tungumálum eru til miklu ýktari dæmi.
Stundum gerist síðan það sem Eiríkur bendir á hér að ofan. Stöðluð stafsetning fer að breyta frumburði. Það er rangt að skrifa þaug þannig að fólk hættir að bera fram þetta G-hljóð. En samt er þetta ekki málvilla í sjálfu sér – bara stafsetningarvilla. Það er ekki það sama.
Við gætum alveg ímyndað okkur þróun á íslensku sem hefði orðið til þess að við myndum bera orðið banki fram eins og það er skrifað. Kannski ef Jón Baldvin hefði verið vinsælli stjórnmálamaður og fólk hefði apað upp eftir honum framburðinn í stað þess að afskrifa hann sem tilgerðarlegan eða ef Halldór Laxness hefði ekki gert uppreisn gegn stafsetningarreglunum.
Ég er ekki að segja að það sé gott eða slæmt að stöðluð stafsetning hafi áhrif á talað mál en ég held að það sé gott að hafa þetta í huga.