Framhaldsskólar með skuldahala

Fyrir nokkrum árum vann ég í framhaldsskóla. Þar sem mínir kjarasamningar gerðu enga kröfu um að mér væri borgað sérstaklega fyrir fundarsetu endaði ég með því að stunda slíkt töluvert (ekki af eigin áhuga). Ég fékk því að fylgjast sérstaklega vel með fjármálum skólans.

Þessi ríkisskóli skuldaði ríkinu peninga. Árin áður hafði skólinn farið fram úr fjárhagsheimildum og þurfti því að skera niður í hinu og þessu næstu árin. Ég mátti t.d. ekki kaupa nema mjög takmarkað af bókum. Á nær öllum fundum sem ég sótti þurfti líka að finna leiðir til að spara. Það var mjög niðurdrepandi. Ég var þó ekki nálægt þegar erfiðustu ákvarðanirnar voru teknar og varð því mjög bylt við þegar ég komst að því að hópi af samstarfsfólki mínu hafði verið óvænt sagt upp.

Í raun þýddi þetta að þeir sem voru í skólanum á þessum árum fengu skerta þjónustu. Ég skil ekki hvernig er hægt að réttlæta slíkt. Þessir nemendur “græddu” ekki á því að skólinn notaði of mikið af peningum árin áður. Það er ekki eins og þessi yfirkeyrsla hafi verið fjárfesting til framtíðar.

Framhaldsskólar eru auðvitað fastir í neti reiknilíkana þar sem Excel segir til hvað hlutirnir mega kosta – hvort sem forsendurnar séu réttar eða rangar. Sveiflur í nemendafjölda milli ára breyta öllu og það er ekki alltaf hægt að skera niður með litlum fyrirvara. Það er stundum óumflýjanlegt að lenda í mínus.

En hvað á að gera þegar skólar lenda í mínus? Kerfið sem ég sá refsaði nemendum og starfsmönnum. En hefði ekki verið rökréttara að fara yfir fjármál skólans, athuga hvað fór úrskeiðis og sjá hvort þetta var í raun óumflýjanlegt eða jafnvel vegna mistaka og vanrækslu? Ef um væri að ræða lélega fjármálastjórn skólans þá ætti einfaldlega að segja upp þeim stjórnendum sem bera ábyrgð. Ekki refsa nemendum sem hvergi komu nálægt ákvörðunum.

Ég veit ekki hvernig er brugðist við svona málum í dag. Ég hóf auðvitað störf í kjölfar hrunsins en jafnvel þegar birti til í ríkisfjármálum var bág staða skólans notuð í klassískri árás frjálshyggjunnar á opinbera þjónustu. Niðurskurður gerði fólk að lokum sátt við að einkaframtakið tæki við. Þar var hægt að fá peninga.