Ef þið fylgist með bandarískum stjórn- og þjóðfélagsmálum þá hafið þið væntanlega heyrt um “Q” og Q-Anon. Þetta er klikkuð samsæriskenning sem hefur náð töluverðri útbreiðslu þar í landi. Það er líka hægt að sjá Q-Anon fólk í athugasemdakerfum íslenskra vefmiðla.
Í stuttu máli er dularfullur gaur sem kallast “Q”, sem á að vera háttsettur embættismaður í Bandaríkjunum, að pósta allskyns rugli á rasistaspjallborð. Miðpunkturinn í málflutningi hans er að Trump sé að reyna að bjarga Bandaríkjunum frá allskonar samsæri Demókrata og ríks fólks. Bjánalegar athugasemdir Trump um hitt og þetta eru túlkaðar sem leynileg skilaboð. Auðvitað er “Q” ekki raunverulegur embættismaður. Mögulega er hann eigandi rasistaspjallborðsins en það er alls ekki víst.
Kenningarnar eru allskonar og sumar mjög undarlegar. John F. Kennedy yngri (ekki eldri eins og Kjarninn skrifaði) sem fórst í flugslysi fyrir rúmum 20 árum er til dæmis í lykilhlutverki og á að hafa sett slysið á svið til að geta unnið á bak við tjöldin til að upplýsa samsæri.
Q-Anon er költið sem trúir á kenningar “Q”. Það er allskonar fólk en margir hafa nefnt að eldra fólk sé oft líklegra til að falla fyrir þessu. Kenningarnar sem Q-Anon fólk dreifir eru ekki eingöngu komnar frá “Q”. Hópurinn fann til dæmis ekki upp á “Pizzagate” samsærinu (meintur barnaníðshringur á pizzastað sem Demókratar sóttu töluvert) en var duglegur að dreifa því. Q-Anon finnur líka allsstaðar vísbendingar um samsærin. Tónlistarmyndband Justin Bieber var til dæmis fullt af vísunum í “Pizzagate” – segir költið.
Q-Anon fólk hefur komist að því að barnaníðsásakanirnar eru líklegar til að fá dreifingar. Í ágúst náði þessi hópur að ræna #savethechildren myllumerkinu. Fullt af fólk deildi óafvitandi áróðri þeirra og mætti jafnvel á mótmæli sem voru ætluð til að vekja athygli á Q-Anon kenningum. Ég sá svoleiðis pósta frá Íslendingum en ég vissi bara ekki hvernig maður ætti að útskýra fyrir fólki að #savethechildren snerist í raun um eitthvað allt annað. Þetta er svona eins og þegar rasistarnar rændu ókeimerkinu og fólk brást við með að úthúða þeim sem bentu á það.
Annars virðist þetta #savethechildren dæmi hafa fjarað að mestu út, m. a. annars vegna þess að Q-Anon komst að því að Bill Gates hafði gefið mikið af peningum til Barnaheilla (Save the Children) og brjálaða samsæriskenningaköltið vildi enga tengingu við Bill Gates. Þetta fólk hatar Bill Gates ekki vegna vafasamra viðskiptahátta heldur vegna þess að það telur að Gates sé að reyna að drepa fólk hægri vinstri með góðgerðarstarfi sínu.
Þó það sé erfitt þá erum við víst á þeim stað að við þurfum að fara að tala um Q-bullið við fólk sem er óafvitandi að falla fyrir samsæriskenningum þeirra. Þetta er ekki bara einhver heimskulegur brandari. Þetta er að dreifast um heiminn og þetta getur verið stórskaðlegt.