Nasistar sem styðja málfrelsi

Í morgun endaði ég inni á íslenska hægri Twitter. Sem er versti Twitterinn. Þar sá ég allskonar vitleysu. Ég sá nokkrar deilingar á myndbandi þar sem vondir andfasistar voru að ýta við manni sem var sakleysislegt skilti þess efnis að hann styddi tjáningarfrelsi. Voða vont fólk. Þessu var deilt eins og þetta væri nýskeð. Athugasemdir um hvað 2020 væri brjálað.

Mig grunaði að þarna vantaði eitthvað samhengi. Þannig að ég lagðist í margra klukkutíma rannsóknarvinnu til að komast að því sanna. Djók. Ég bara las athugasemdirnar við upprunalega myndbandið. Þar var snarleg bent á að myndbandið væri ekki nýtt og að það vantaði mikið upp á samhengið.

Ef maður hefur fylgst með öfgahægrinu þá sér maður alltaf sama bragðið sem þeir nota. Fyrst er tjáir einhver viðbjóðslega skoðun. Þessari skoðun er síðan mótmælt og í kjölfarið fara hægrimenn að tala um skoðanakúgun, árás á málfrelsið og reyna að hunsa viðbjóðinn sem var orsakaði reiði vinstra fólksins.

Í þessu tilfelli voru nýnasistar með viðburð í hverfi í London árið 2017 og fólk í hverfinu mætti til að mótmæla. Til að hafa það á hreinu, þegar ég sé nýnasistar, þá meina ég alvöru nýnasistar. Meðal annars gaur sem sagði að Anders Breivik hefði gert það sem marga bara dreymdi um. Þið munið kannski eftir Breivik. Hann drap fullt af krökkum í Útey.

Það var sumsé stuðningur við fjöldamorð sem fór fyrir brjóstið á þessum andfasísku snjókornum. Síðan mætir þessi eini gaur og segist styðja málfrelsi. Allir vita að hann meinar að hann sé nasisti en það er hægt að búa til úr þessu myndband þar sem saklaus gaur er ofsóttur af öfgavinstrimönnum.

Ef við ætlum að tala um mörk tjáningarfrelsið þá er gott að muna eftir hefðbundna dæminu. Þið vitið, þetta með að öskra eldur í troðnu leikhúsi. Ég ætla að halda statt og stöðugt fram að stuðningur við fjöldamorð falli vel og vandlega undir málfrelsi sem má takmarka. Allavega styð ég að fólk safnist saman og mótmæli svona fólki.

Það er áhugavert að það eru ekki svartklæddu anarkistarnir sem ganga þarna harðast fram. Það er kona, væntanlega á mínum aldri eða eldri, sem stuggar við nasistanum. Ég skil hana vel. Þegar ég sé nasista þá fer hnefinn minn að kreppast. Hún bara ýti við honum. Ég myndi ekki vilja fá svona pakk í hverfið mitt.

Ég tek fram að ég skil alveg að fólk sé algjörlega á móti jafnvel sakleysislegum ýtingum eins og sjást í myndbandinu. En það að deila þessu myndbandi í röngu, eða án, samhengi(s) er bara áróðursbrella sem við þurfum að verjast.

Síðan getum við séð hverjir voru að deila myndbandinu. Það var til dæmis Toby Young. Ég ætla ekki að kalla hann nasista. Hann styður reyndar kynbætur á mönnum. Hann er líka í forsvari við einhver samtök sem kenna sig við málfrelsi.

Athugasemdirnar við myndbandið segja líka sitt. Þær voru margar hverjar rasískar. Ábending: Ef þú ert að deila einhverju og sérð að fullt af rasistum eru hrifnir af því þá ættirðu kannski ekki að deila því.

Hvernig ætli fólki líði ef það kemst að því að það var að deila nasistaáróðri? Ætli það hugsi: “Oj, nei. Verð að passa mig á þessum nasistum”? Eða ætli það hugsi: “Æ, nei. Það komst næstum upp um mig”?

Það eru ótrúlega öflugar áróðursvélar í gangi. Helsta vopn okkar gegn þeim er að hafa fólk á okkar bandi sem efast ekki bara um það sem andstæðingarnar hafa fram að færa (sem er það sem ég er að gera hér) heldur samherjarnir sem leyfa sér að spyrja félaga sína hvort það sem þeir eru að deila sé raunverulega satt.

Ef þú átt ekki vin sem leyfir sér að efast um það sem þú segir þá ertu illa staddur.

Að lokum vil ég benda á að samkvæmt röksemdarfærslu hægri manna er öll gagnrýni á þessi skrif mín árás á málfrelsi mitt.

One thought on “Nasistar sem styðja málfrelsi”

  1. Ég er sammála, og finnst t.d. þessi setning hér mjög góð: “Ef þú átt ekki vin sem leyfir sér að efast um það sem þú segir þá ertu illa staddur.”

Lokað er á athugasemdir.