Þegar ég var svona 10-11 ára þá keypti ég Sherlock Holmes bækur á bókamarkaði. Las þær allar. Elskaði þær. Líklega hafði ég þá þegar horft á bæði Sherlock Holmes þættina með Jeremy Brett og kvikmyndina Young Sherlock Holmes. Þá var ég líklega búinn að sjá The Private Life of Sherlock Holmes þar sem Loch Ness skrýmslið kom við sögu.
Ég hef líka verið hrifinn af uppstokkun á Sherlock Holmes. Dæmi um slíkt er Without A Clue þar sem kemur í ljós að Watson er í raun sá klári. Síðan fannst mér Elementary frábær nútímavæðing á persónunum. Ég féll hins vegar aldrei fyrir Sherlock.
En af öllum þessum uppstokkunum á persónunni þá stendur smásagan A Study in Emerald eftir Neil Gaiman uppúr. Þar er blandað saman Sherlock Holmes og H.P. Lovecraft. Frábært alveg. Í sama dúr er skáldsagan The Angel of the Crows eftir Katherine Addison (Sarah Monette). Þar er einkaspæjarinn settur í fantasíuhrylling og útkoman æðisleg.
Þannig að þegar ég sá þættina The Irregulars á Netflix þá varð ég mjög spenntur. Titilinn gaf til kynna að hér væri verið að fjalla um götukrakkana sem Holmes notaði oft til að njósna fyrir sig. Um leið var ljóst að yfirnáttúru og hryllingur blandaðist inn í það.
En þættirnir eru bara “meh”. Ég hef séð þetta gert svo mikið betur. Það eru fullt af góðum hugmyndum en lausnirnar eru oftar ekki einfeldningslegar. Það að blanda fjölskyldu Viktoríu drottningar inn í söguna er ein af þessum góðu hugmyndum sem hefði mátt vinna betur úr.
Það sem stóð uppúr var hins vegar aðalleikkonan Thaddea Graham. Ég kannaðist við hana úr annarri “lala” Netflix seríu The Letter for the King. Það er engin tilviljun að allir dómar sem ég hef lesið um The Irregulars segja það sama, hún er það besta við þættina. Ef Thaddea Graham fær betri efnavið þá verður hún stjarna.
Í þessum þáttum er farin sama leið og t.d. í Bridgerton (sem ég hef reyndar ekki séð). Leikarnir eru af ýmsum uppruna en það er aldrei talað um húðlit. Ég skil alveg kostinn við þessa nálgun. Hingað til þá hefur verið nær alveg lokað á aðra en hvíta leikara í svona sögulegu efni sem er staðsett í Bretlandi. Svona fá þeir tækifæri. En það er samt næstum því eins og það séu allir að leika hvítar persónur.
Þegar þættirnir byrjuðu og ég sá að Thaddea Graham, sem er mjög greinilega af kínverskum uppruna, ætti systur í þáttunum sem leit út fyrir að vera mjög “bresk” þá fór ég að vona að hér yrði kafað ofan í reynsluheim slíkrar fjölskyldu á Viktoríutímabilinu. En það var augljósleg ekki gert.
Vandinn við sögulegt efni er svo oft að það hunsar þann fjölbreytileika sem var til staðar. Við höfum séð endalausar birtingarmyndir London þessa tíma þar sem allir eru hvítir. En það var ekki þannig. Meira að segja Arthur Conan-Doyle notaði persónur af öðrum uppruna í sögum sínum en því miður var hann frekar rasískur í því hvernig hann sýndi þær.
Þegar svartur maður fékk aðalhlutverkið í Les Mis á Broadway þá var fullt af reiðu fólki sem hafði engan skilning á því að það var svart fólk í Frakklandi á þeim tíma sem sagan gerðist. Frægastir þeirra eru auðvitað hershöfðinginn Dumas og rithöfundarnir sonur hans og sonarsonur.
Þannig að mér finnst svona “litblint” leikaraval ekki svara þeirri þörf að segja sögur sem hafa ekki verið sagðar.