Roger Taylor Shepherd's Bush 2021

Utangarðsmaður á rokktónleikum í London

Árin eftir að Freddie Mercury dó gáfu bæði Brian May, gítarleikari Queen, og Roger Taylor, trommari hljómsveitarinnar, út sólóplötur og fóru á tónleikaferðir. Þá dreymdi mig um að fara á slíka tónleika. Ég var sérstaklega hrifinn af efni Roger Taylor. Happiness? og Electric Fire. Ég man eftir að hafa reynt að sannfæra skólafélaga minn um ágæti Happiness? og þegar ég sagði að þetta væri trommari Queen þá datt honum ekki annað í hug en að þetta væru endalaus trommusóló. En auðvitað spilar Roger á ótal hljóðfæri.

Þegar ég byrjaði að stunda utanlandsferðir voru Roger og Brian ekki að spila eigið efni reglulega. Í staðinn fóru þeir félagar að spila saman undir „Queen+“ nafninu. Ég hef farið á þrenna slíka tónleika en mig langaði ennþá að heyra þá spila sólóefnið.

Þeir félagarnir ætluðu að fara í tónleikaferð sem Queen+ Adam Lambert núna í fyrra en þurftu að fresta. Það verður bara á næsta ári í staðinn. En síðan heyrðist orðrómur um að Roger Taylor væri að taka upp nýja plötu. Það varð síðan meira spennandi þegar það var staðfest að það væri ekki bara platan Outsider heldur líka tónleikaferð um Bretland.

Ég keypti miða strax. En ég þorði ekki að kaupa flugferð strax. Ég beið aðeins. Ég bókaði ótrúlega ódýrt hótel með ákaflega góðum afbókunarskilmálum (langaði auðvitað að kíkja á hótelið sem er með útsýni yfir gamla húsið hans Freddie). Beið aðeins lengur. Bókaði flug. Keypti nokkra leikhúsmiða.

Ég átti erfitt með að velja sýningar til að fara á enda úrvalið ennþá aðeins takmarkað. Þar sem ég er aðdáandi söngkonu sem heitir Samantha Barks (Les Mis myndin) þá ákvað ég að kíkja hvað hún væri að gera. Hún er í aðalhlutverki í Frozen-söngleiknum. Ég sá ekki fyrir mér að það liti vel út að vera 42 ára kallinn í leikhúsi fullu af ungum stelpum. Meira af vali mínu hér neðar.

Ég þurfti að fylgjast vel með Covid-19 skilyrðum í Bretlandi. Að lokum var það þannig að ég þurfti bara að mæta með bólusetningarvottorð og bókun í smitpróf á öðrum degi ferðarinnar. Smitprófið átti bara að senda á hótelið og það fylgdi með svarumslag fyrir sýnið.

Fimmtudagur (útferð og 11. september)

Ég flaug snemma á fimmtudagsmorgun og var lentur um hádegi. Neðanjarðarlest á hótelið. Ég ætlaði að nota bara kort til að borga í lestarnar eins og síðast en kreditkortið mitt er með ónýta örflögu og debetkortinu var hafnað. Ég þurfti því að kaupa ostrukort.

Hótelið er staðsett í Fulham. Heitir Ibis London Earls Court. Sjúskað en ekki sóðalegt. Smá lúr, ekki nógu langur. Leið eins og ég allur væri lurkum laminn. Fór niður í Soho. Svo heppilega vildi til að það var nýopnuð skyndibúð í Karnabæ. Sú heitir Queen The Greatest og er tileinkuð fimmtíu ára afmæli Queen.

Queenbúðin selur Queenvörur. Ég skoðaði mikið en keypti ekki margt. Auðvitað langaði mig að kaupa Queenboli á drengina mína og stóð við borðið þar sem barnastærðirnar voru. Ég lenti tvisvar í því að starfsfólk kom mjög alvarlegt til mín og útskýrði að bolirnir væru fyrir krakka. Ég sagðist vita það. Fann rúmleg númer fyrir strákana.

Ég var kominn í tímaþröng og gat ekki fundið neinn góðan veitingastað þannig að ég hoppaði inn á skyndibitastað sem heitir Slim Chickens. Ég fékk kjúklingavængi sem voru ekki sérstaklega góðir. Verra var samt að það var enginn vaskur á klósettinu. Enginn vaskur á klósettinu! Ef þið hafið borðað kjúklingavængi sjáið þið kannski vandamálið. Þetta er fingramatur. Vængirnir voru hjúpaðir sósu. Sumsé klístrað. Ég gat ekki þvegið mér. Lausnin? Ég notaði töluvert magn af spritti til að ná því mesta af mér.

Rétt hjá kjúklingastaðnum var staður sem virtist koma vera tímaferðalangur. „Live Nudes“ og „Peep Show“ er ekki beinlínis eitthvað sem er á hverju horni í Soho 21. aldarinnar. Meira eitthvað frá sjöunda og áttunda áratugnum. Ég skoðaði ekki vandlega en eftir að Cory Doctorow birti mynd af sama stað ákvað ég að leita að upplýsingum. Kemur í ljós að þetta er mexíkanskur veitingastaður.

Það var í kringum 11. september þar sem ég var að skoða mögulegar leikhúsferðir. Mögulega hafði allt tal um tuttugu ára afmælið þau áhrif að ég keypti miða á Come from Away. Það er söngleikur um 11. september 2001. Við hin eldri munum mörg eftir því að eftir hryðjuverkin voru allar flugvélar í lofthelgi Bandaríkjanna sendar á kanadíska flugvelli.

Áður en þotutæknin varð til þess að hægt var fljúga lengri vegalengdir þurfti að millilenda til að taka eldsneyti. Mig minnir að Keflavík hafi sinnt slíku hlutverki. Smábærinn Gander á Nýfundnalandi varð líka miðstöð fyrir millilendingar. Þannig að þar varð til risavaxinn flugvöllur sem varð fljótlega úreltur.

Þann 11. september 2001 þurftu ótal þotur að lenda á öruggum stað, helst fjarri fjölmennri byggð. Þrjátíu og átta farþegavélar lentu í Gander. Skyndilega tvöfaldaðist nær mannfjöldinn. Söngleikurinn fjallar um þetta aðallega í gamansömum tón með nokkrum dökkum atriðum. Þetta var eiginlega of skrýtið til að sleppa og ég sá ekki eftir því. Það sátu samt engin lög eftir í höfðinu á mér.

Í röðinni í leikhúsið þurfti ég að sýna bólusetningarvottorðið, eins og ég þurfti að gera á öllum slíkum samkomum. Það var hins vegar skrýtið að sjá hve fáir voru með grímur í salnum (og almennt í London miðað við stöðuna og reglur).

Föstudagur (Roger Taylor í Shepherd’s Bush)

Ég var ótrúlega þreyttur þegar ég kom á hótelið og mig langaði til að sofa af mér föstudaginn. Ég gerði það ekki alveg en ég afrekaði ekki mikið. Ég íhugaði að kíkja á nuddstofu í götunni en ég veit bara ekkert hvernig maður sér muninn á nuddstofu og „nuddstofu“.

Rétt áður en ég fór af stað á tónleikana kíkti ég við á Rudie’s Jerk Shack. Það er lítil keðja af jamaískum veitingastöðum. Ég keypti aftur kjúklingavængi og hafði franskar með. Fyrsti bitinn var ekki góður. Líka alltof sterkur. En þetta varð fljótt ákaflega gott. Samt sterkt.

Yfirgrundin ferjaði mig til Shepherd’s Bush þar sem tónleikarnir voru. Þar sem munnurinn minn var enn logandi ákvað að ég að kíkja í Waitrose og finna eitthvað til að slökkva eldinn. Hér áður fyrr hefði ég notað kók eða annað gos en í staðinn greip ég kanilsnúð. Það dugði.

Það var áhugavert að heimsækja matvöruverslanir í London. Víða voru afsakanir varðandi vöruskort. Brexit er sumsé alveg að virka. Í Waitrose þótti mér fyndið að sjá osta merkta með „inniheldur mjólkurvörur“. Ég ætlaði að taka mynd en hugsaði með sjálfum mér að myndi yrði kannski notuð af fólki sem telur þetta tengjast hruni vestrænnar siðmenningar.

Tónleikastaðurinn er sögufrægur, Shepard’s Bush Empire. Það opnaði árið 1903 og samkvæmt Wikipediu kom sjálfur Chaplin fram á sviðinu. Lengi var salurinn notaður fyrir upptökur og útsendingar BBC.

Brian og Roger hafa báðir spilað áður í salnum. Sjálfur John Deacon spilaði þarna árið 1995 með SAS band, næstsíðustu tónleikar hans til þessa (spilaði síðast 1997 með Brian, Roger og Elton John undir dansi hjá Bejart Ballettinum).

Röðin við Shepherd's Bush Empire
Ég aftastur í röðinni. Það kom reyndar fljótlega fólk fyrir aftan mig.

Síðasta tónleikaferð Roger á sólóferlinum var 1998-99. Þannig að ég hafði beðið lengi. Ég beið í svona tvo klukkutíma í röðinni. Ég var ennþá aumur í líkamanum eftir flugið daginn áður þannig að þetta voru ekki notalegar stundir. Ég nennti ekki einu sinni að spjalla við fólk í röðinni. Nema reyndar stúlkuna sem var á eftir mér í röðinni.

Ég var alltaf að horfa á hana að velta fyrir mér hvers vegna hún væri svona kunnugleg. Ég áttaði mig skyndilega hvers vegna. Sama hárgreiðsla og stór gleraugu (á nútímamælikvarða). Stór gleraugu á samtíma mælikvarða – ekki endilega níunda áratugs. Ég afsakaði mig við stúlkuna og útskýrði á að hún minnti mig mjög á systur mína. Ég nefndi ekki að útlitslega séð væri hún eiginlega blanda af mér (á unglingsárum) og Önnu.

Þegar ég kom inn bölvaði ég sjálfum mér töluvert fyrir að hafa ekki keypt sæti á svölunum. Lítið í því að gera þannig að ég fór aftast í salinn og settist niður þar meðan ég beið. Gat um leið dáðst að þessum fallega tónleikasal.

Ég heyrði líka fólk tala um að grímur væru óþarfar. Miðað við smitþróun í London var ég ekki jafn bjartsýnn. Ég hugsaði líka um hve auðvelt væri að dreifa sýklum með því að syngja hástöfum með lögunum.

Upphitunaratriðið var Colin MacLeod (líklega yngri bróðir Connor). Mjög fínn en ég var ekki í neinu stuði. Ég var glaðastur með að setjast aftur niður þegar hann fór af sviði.

Þegar klukkan fór að nálgast níu byrjuðu kunnuglegir tónar að heyrast. Ekki Roger eða Queen. Það var Hoppípolla með Sigur Rós. Lagið boðaði augljóslega upphaf tónleikanna. Ég gladdist mjög. Fékk smá orku. Langaði að vera gaurinn sem talar um að vera frá Íslandi.

Síðan kemur Roger og fyrsta lagið hans var Strange Frontier. Nú er það þannig að ég hef aldrei verið jafn hrifinn af eldri sólóplötum hans. Það er Strange Frontier og Fun in Space. Ég eignaðist þær seint og síðarmeir. Happiness? og Electric Fire fékk ég 15 og 19 ára gamall. Ég man gleðina sem fylgdi því að finna Happiness? í skammlífri plötubúð (HP?) í göngugötunni á Akureyri. Það er erfitt að jafna tilfinningatengsl táningsins við tónlist. En Strange Frontier er frábært lag.

Næst tók Roger lagið Tenement Funster. Það er af Queenplötunni Sheer Heart Attack. Það gaf tóninn fyrir tónleikana.

And my rock’n’roll forty fives
Been enragin’ the folks on the lower floor

Roger hefur alltaf verið nostalgískur sem textasmiður og yrkir gjarnan um sín yngri ár. En þemað var ekki um persónulegar upplifanir heldur sameiginleg tengsl okkar við rokktónlist. Í raun mætti kalla þessa tónleika ástarbréf til rokksins.

Auðvitað er þemað ekki algilt eins og næsta lag sýnir okkur. Það var We’re All Just Trying To Get By af nýju plötunni Outsider. Það lag fjallar beint og óbeint um heimsfaraldurinn sem við upplifum núna. Frekar ljúft og fallegt.

Næsta laga var síðan eitt uppáhaldið mitt af Electric Fire, A Nation of Haircuts. Ég hef alltaf sett lagið í samhengi við „Cool Britannia“. Brit popp varð vinsælt og það var aftur fínt að vera breskur. En það er vissulega smá sjálfsháð í textanum enda Roger alltaf verið meðvitaður um ímynd sína. Það var yndisleg tilfinning að syngja með í viðlaginu.

And we salute you all you groovy dudes
Yeah we salute you you’re so fucking cool

These Are The Days Of Our Lives er lag sem er óþarfi að kynna fyrir Queenaðdáendum. Hápunktur Rogerískrar fortíðarþrá sem fékk aðra og dýpri merkingu eftir dauða Freddie. Bókstaflega síðasta skotið af honum í tónlistarmyndbandi er hann að segja „I still love you“ sem ég hef alltaf litið á sem vísun í Love of My Life. Kjarni Rogers kemur hins vegar skýrt fram í eftirfarandi línum.

No use in sitting and thinkin’ on what you did
When you can lay back and enjoy it through your kids

Það var líka gaman að sjá börnin hans mætt til að sjá gamla kallinn. Ég þekkti reyndar bara tvö þeirra, Tigerlily (sem hannaði hið minímalíska og áhrifaríka umslag Outsider) og Rufus (núverandi trommari The Darkness).

Árið 2013 gaf Roger út plötuna Fun on Earth. Þar má finna lagið Up sem kom næst. Ég hef aldrei grennslast fyrir um það en textinn minnir mig á samnefnda mynd.

Queen var aldrei pólitísk hljómsveit en sem sólólistamaður hefur Roger ort töluvert um skoðanir sínar. Mig grunar að það hafi alveg haft áhrif á mig, sérstaklega Happiness? platan og nánar tiltekið lögin Nazis 1994 og Dear Mr. Murdoch. Þau lög voru ekki spiluð í þetta sinn. En í staðinn fengum við glænýtt lag sem heitir Gangsters Are Running This World.

Absolutely Anything er líka af Outsider. Það er þó nokkuð eldra. Lagið var samið fyrir samnefnda kvikmynd frá árinu 2015 sem Terry Jones leiksstýrði. Ég hef aldrei séð myndina en Roger segir að hún hafi fengið ósanngjarna dóma. Ég þori varla að horfa.

Það er erfitt að ímynda sér Queen syngja um heimilisofbeldi en það gerir Roger í laginu Surrender af Electric Fire. Ég hef aldrei heyrt baksögu lagsins nákvæmlega en Roger hefur staðfest að það byggi á persónulegri reynslu. Miðað við að foreldrar hans skildu þegar hann var ungur liggur ákveðin túlkun í augum uppi. Hér tók Tna Keys (Christina Hizon) að sér að syngja á móti Roger.

No hope left, just pain
Whiskey on his breath, violence in his brain
Scared kids, with scarred minds

Að öðrum ólöstuðum (og að Roger undanskildum) var Tna Keys stjarna kvöldsins. Hún spilaði á hljómborð, fiðlu og trommur auk þess að syngja. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar voru mér góðkunnir en hún kom fersk inn, glöð og hæfileikarík.

Man on Fire var á Strange Frontier. Platan innihélt líka lag eftir Bruce Springsteen en þetta lag minnir mig einmitt alltaf á „The Boss“. Kannski er það raddbeitingin, kannski textinn, líklega bæði. En það er allavega gaman að syngja með.

Styrkur hljómsveitarinnar sem Roger setti saman fyrir tónleikaferðina sást best þegar hann sjálfur tók sér pásu og leyfði þeim að spreyta sig á Queenlaginu Rock It (Prime Jive). Það var trommarinn Tyler Warren sem tók að sér að syngja lagið. Hann kom inn í Queenfjölskylduna í gegnum farandssýninguna Queen Extravaganza sem hefur heimsótt Ísland. Hann hefur líka tekið að sér trommuslátt á tónleikaferðum Queen+ Adam Lambert. Líkt og á þessum tónleikum tekur Roger alltaf ennþá nokkur lög en hann er 72 ára og Tyler gefur honum tækifæri á að spara kraftana.

Með Rock It kom eitt af þessum yndislega sterku upplifunum þegar áhorfendur syngja með og, allavega ég, fara að trúa bókstaflega á boðskap tónlistarinnar.

When I hear that rock and roll
It gets down to my soul
When it’s real rock and roll
Oh rock and roll

Það er löngu þekkt að af Queen þá var Roger alltaf stærsti aðdáandi David Bowie og naut þess mest að taka upp Under Pressure með honum (það eru til ýktar sögur um árekstra Brian og Bowie). Hann syrgir Bowie enn og tók auðvitað lagið þeirra.

Brian og Roger unnu lengi með Nelson Mandela til að vekja athygli á alnæmisfaraldrinum í Afríku. Fyrsta lagið sem þeir tóku upp með Paul Rodgers, Say it’s Not True, var einmitt til stuðnings því verkefni (46664). Roger tók lagið líka plötunni Fun on Earth. Það er erfitt að líta framhjá hve vel textinn endurspeglar ástandið í heiminum í dag. Ég söng allavega mjög innilega með.

With the wonders of science
All the knowledge we’ve stored
Magic cocktails for lives
People just can’t afford

Næsta lag var kynnt með vísun í kvikmyndina Bohemian Rhapsody. Roger taldi að ill hafi verið farið með lagið þar. Gert of mikið grín að því. Við tónleikagestir glöddumst allavega mjög að syngja með I’m in Love with My Car.

Titillag plötunnar Outsider er þema tónleikana í hnotskurn. Ekki af því að það fjallar um rokk heldur af því það fjallar um að vera utangarðs sem hefur alltaf verið stór hluti sjálfsmyndar rokksins. Það má segja að það hafi verið fáránleg hugmynd þegar Queen var upp á sitt besta en í dag lítur það stundum út fyrir að rokkið sé aftur komið utan garðs.

More Kicks er af nýju plötunni og sýnir mjög vel það sem ég hef verið að nefna.

I was young and stupid
I didn’t feel no pain
I was looking for trouble
I didn’t feel no shame

Sparkið sem lagið vísar til er þó augljóslega trommuleikur og því viðeigandi að Tyler og Roger hafi saman tekið smá trommueinvígi í kjölfarið. Mjög gaman. Mikið rokk.

Eina lagið sem spilað var af Happiness? var í hálfgerðum felulitum. Það er Foreign Sand. Á þeirri plötu var það flutt með japanska tónlistarmanninum Yoshiki. Roger endurgerði lagið fyrir Outsider, strípaði það niður í einfaldan og fallegan búning. En áhorfendur á þessum túr hafa tekið sig til og gert það að hefð að taka undir á óvenjulegan hátt.

It’s not a lie, it’s not a shame we play for keeps, it’s not a scam
No bigotry, we’re hand in hand, it ain’t a cinch, we make a stand
We learn to live on foreign sand
Just say hello

Textinn er einlægur og endurspeglar afstöðu Roger til heimsins. En þegar hann söng „Just say hello“ svara áhorfendur með eigin „Hello“. Roger hálfskammaði okkar og sagði „It’s supposed to be a serious song“. Ég held að hann hafi ekki alveg vitað hvað honum ætti að finnast um þetta uppátæki.

Little Richard lést í fyrra en Roger sagði að hann lifði áfram í huga hans. Tutti Frutti er auðvitað ein helsta varðan frá upphafsárum rokksins. Queen tók lagið nokkrum sinnum á tónleikum og má heyra það á Live at Wembley plötunni. Útgáfa Rogers var frekar trú upphaflega hljómnum (en þó meira í rokkabillí enda gítardrifið).

Fyrir tónleikana var sterkur orðrómur um að Brian May myndi láta sjá sig. Auðvitað þorði ég ekki að trúa því. En þegar Tutti Frutti virtist vera að lokum komið þá heyrðist kunnuglegur tónn og hávaxinn grákrullóttur maður steig á svið. Þá var Tutti Frutti keyrt aftur í gegn, nú með þyngri tón. Gleðin í salnum var algjör.

Brian May kemur á svið með Roger Taylor í Shepherd's Bush Empire 22. október 2021
Ég náði bestu myndina af félögunum Brian og Roger á sviði.

Brian var líka með í næsta lagi, Queenlagi eftir Roger úr kvikmyndinni Highlander. A Kind Of Magic hefur aldrei verið uppáhalds hjá mér en það voru galdrar þarna í Sheperd’s Bush Empire og gleðin endalaus.

Allir yfirgáfu sviðið og eftir málamyndauppklapp kom hljómsveitin aftur á svið. Þá tók Roger smá Zeppelin stund og spilaði Rock & Roll. Þema tónleikanna var ekki óljóst á þeirri stundu.

Í kjölfarið heiðraði Roger aftur minningu Bowie, í þetta skiptið með laginu Heroes.

Lokalag tónleikanna var stærsti smellur Roger og eitt fyrsta Queenlagið sem ég man eftir. Radio Ga Ga. Það var hreint yndislegt að fylgjast með (og taka þátt) áheyrendum lyfta höndum og klappa í anda tónlistarmyndbandsins. Mér skilst að, ólíkt We Will Rock You, hafi þessi hefð skapast alveg óvart.

Við klöppuðum, hljómsveitin yfirgaf sviðið, ljósin kveikt og þegar ég sá fjölskyldu Roger taka saman föggur sínar vissi ég að það yrði ekkert auka uppklapp.

Þegar ég kom við í Queenbúðinni í Karnabæ greip ég bæði Outsider og nýju útgáfuna af Back to the Light með Brian May í von um áritanir. Ég ákvað að hanga þarna og sjá hvort ég myndi hitta á annan hvorn eða báða. Ég vissi að Roger hafði áritað eftir suma tónleika þannig að ég var vongóður. En þegar á leið heyrði ég að líklega yrði ekkert svoleiðis vegna Covid.

Allavega fékk ég gott hrós fyrir grímuna og myndina á töskunni minni. Bæði Trap Jaw.

Ég heyrði sögu frá stúlku sem talaði með írskum hreim en sagðist vera ensk. Hún hafði brugðið sér á salernið og lenti í því að einhver stór gaur var í dyrunum að horfa á tónleikana. Hún bað hann um að færa sig og hann biðst innilegrar afsökunar á meðan hún missti andlitið. Þetta var Brian May.

Það voru líka gaurar að spjalla, annar frá Írlandi og hinn frá Brasilíu. Allt í góðu þar til forseti Brasilíu var nefndur. Þá kom gaurinn forseta sínum til varnar og sagði það gott að hafa sterkan mann. Augnabliki seinna þurfti Írinn að fara.

Við sáum töluvert af börnum Roger að rölta inn og út. Ég sá ekki Tim Staffell, þriðja meðlim Smile en hann var víst líka svæðinu.

Að lokum fór svo að Roger yfirgaf staðinn í bíl. Ég var að vonast eftir því að hann myndi kasta á okkur kveðju þar sem hann var með opinn glugga en auðvitað var það skemmt. Gaur sem var greinilega að taka upp á síma tróð sér upp að bílnum og kallaði spurningar til Roger sem nennti greinilega engu svoleiðis.

Ég var mjög þreyttur. Þyrstur. Svangur. Yfir- og undirgrundirnar voru hættar að ganga. Ég var ótrúlega glaður að sjá M&S Simply Food ennþá opið rétt hjá. Í raun hálfgerð bensínstöðvarsjoppa. Ég rölti þangað og greip fjórar flöskur af kolsýrðu vatni. Á leiðinni að kassanum sá ég samlokur og ákvað að taka eina með skinku af osti. Þegar ég ætlaði að borga sagði afgreiðslumaðurinn eitthvað illskiljanlegt. Ég hváði. Hann endurtók og ég áttaði mig á að hann var að bjóða mér að hita samlokuna. Þakklæti mitt var endalaust og þarna náði hann breyta snarli í máltíð.

Þrátt fyrir að strætisvagnarnir séu eitt helsta einkennistákn London hef ég aldrei notað þá. Þó það hafi ekki verið nema rúmlega 30-40 mínútna labb að hótelinu hafði ég enga orku. Ég kom mér á strætóstöðina og beið ekkert rosalega lengi. Get ekki sagt að ferðin hafi verið merkileg lífsreynsla. Ég þurfti að ganga í svona tíu mínútur að hótelinu. Ég fékk smá nasaþef af hinu fræga næturlífi London. Einn fullur að pissa. Stúlka sem ég hélt að væri að betla var, þegar betur var séð, greinilega á leiðinni á eða af djamminu. Sat og sötraði gosbjórinn sinn á gangstéttinni.

Laugardagur (nördabúðir, indverskir veitingastaðir og tvö leikrit)

Ég var enn svolítið aumur daginn eftir. Fjárfesti í verkjalyfjum til að draga úr verkjunum. Keypti líka aspirín til að eiga bara heima á Íslandi til að berjast við mígreniköst.

Allar heimsóknir til London krefjast viðkomu í búðum á, og nálægt, Shaftesbury Avenue. Fyrst fór ég í Forbidden Planet. Þar voru margar freistingar. Það var hægt að kaupa Trap Jaw Funko í yfirstærð. Sá ekki fyrir mér að hafa pláss fyrir þann grip. Ákvað í staðinn að kaupa eitt stykki Orko. Ég lagði þó áherslu á að finna eitthvað fyrir strákana. Ég áttaði mig að það er miklu auðveldara að finna eitthvað til að gleðja Ingimar en Gunnstein. Ég hefði kannski gripið einhver Pokemon spil en komst að því að það er skortur á þeim á Bretlandi.

Seinna um daginn heimsótti ég Orc’s Nest. Frábær spilabúð. Á meðan ég var á staðnum sá ég Íslendinga, pabba með tveimur krökkum. Ég ákvað að auglýsa ekki nærværu mína. Langaði að minna þau á að kíkja líka á Forbidden Planet.

Þrátt fyrir góðan vilja hafði ég ekki komið mér á indverskan veitingastað í ferðinni. Sá sem ég ætlaði að heimsækja í nágrenni hótelsins var lokaður. En rétt hjá Forbidden Planet var staður sem heitir Punjab. Í stuttu máli var maturinn frábær þar.

Almennt fer ég frekar á söngleiki en leikrit. En í þetta skiptið rakst ég á tvö leikrit sem heilluðu mig. The Shark is Broken fjallar um samskipti þriggja aðalleikara kvikmyndarinnar Jaws. Höfundur verksins er Ian Shaw, sonur Robert Shaw (T.S. Quint) sem einnig leikur föður sinn. Ég vandaði mig á að horfa á Jaws áður en ég fór út. Man ekki eftir að hafa séð hana áður í góðri upplausn og víðskjá. Ég man ekki eftir að hafa verið hræddur þegar ég sá hana á myndbandsspólu en kannski hefði verið erfiðara að þola þetta í hárri upplausn. B-mynd en góð B-mynd.

Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast við af leikritinu. En sagan og persónurnar voru áhugaverðar. Allavega Shaw og Richard Dreyfuss. Ian nær pabbi sínum, sem lést nokkrum árum eftir tökur á myndinni, ótrúlega vel. Þeir eru líka mjög líkir nema að andlit Robert bar með sér að hann væri „lifaður“. Ian ber aldurinn betur. Ég veit ekki hvort Richard Dreyfuss var jafn óþolandi vælutýpa og leikritið sýnir.

Það hefur lengi verið vitað að samskipti leikara á bak við tjöldin endurspegluðu ´atökin á milli persóna þeirra í myndinni. Þetta þýðir auðvitað að peróna Roy Scheider (lögreglustjórans Brody) er ekki sérstaklega áhugaverð. Hans hlutverk var að miðla málum.

Yfir heildina naut ég sýningarinnar. Ég fékk smá aulahroll yfir sumum bröndurunum sem endurspegluðu sjónarhorn 21. aldarinnar. En áhorfendur voru hrifnir af þeim. Leiksviðið var frekar einfalt en virkaði ágætlega. Ég held að ég sé ekki að höskulda neitt með því að segja að einræða Quint hafi verið hápunktur sýningarinnar.

Það er merkilegt að ég hef áður lent í því að finna ekki laust borð á góðu veitingastöðunum í kringum leikhúsin fyrir kvöldsýningarinnar en ég læri ekki neitt. Fór fram og til baka og endaði á indverskum stað sem var ekki alveg í fyrsta flokki. Vonbrigðin með samósurnar virtust staðfesta ótta minn. Þær hefðu allt eins getað komið úr Iceland. En aðalrétturinn var yndislegur og naanið líka þannig að ég var frekar sáttur. Strand Tandori.

Hitt leikritið sem ég sá í London var Ocean at the End of the Lane, byggt á samnefndri skáldsögu Neil Gaiman. Alveg óvart var laugardagskvöldið fyrsta sýningin á leikritinu, ekki frumsýning heldur forsýning.

„Rafmiðinn“ sem ég fékk innihélt ekki sætisnúmer en ég fann það í bókunarpóstinum mínum. Ég settist í sæti sem var frekar framarlega, og fyrir miðju. Eftir augnablik kom kurteis maður og sagði að ég væri í sætinu hans. Þar sem hann var með tveimur öðrum ákvað ég að það væri auðveldara fyrir mig að víkja. Ég fór upp í miðasöluna og fékk staðfestingu á að sætisnúmerið mitt væri rétt. Bara á svölunum. Ímyndið ykkur hve vandræðalegt það hefði verið ef ég hefði ákveðið að vera með vesen við gaurinn sem raunverulega átti sætið. Því miður var raunverulega sætið mitt mjög óþægilegt. Ég þurfti að karlgleiða mig af því ég gaf bókstaflega ekki komið hnjánum mínum fyrir.

Leikhúsið hafði verið lokað í um eitt og hálft ár og það var gleði hjá leikurum og leiksstjóra. Allir spenntir. Það var varað við að mögulega þyrfti að stoppa sýninguna ef eitthvað væri úrskeiðis.

Því miður var ég ekki rosalega hrifinn af leikritinu. Kannski af því að ég elska bókina of mikið. Mögulega var þetta ekki orðið nógu smurt. Sumt í framsetningunni var ekki að heilla mig. Síðan fannst mér gamla frú Hempstock ekki frábærlega leikin. Öldrunargervi hennar var frekar slakt. Sá sem lék pabbann og fullorðna strákinn var ekki heldur að grípa mig.

Ljónastytta á Trafalgar
Ljón fyrir Eygló

Ég ætlaði að rölta niður á Trafalgartorg, sælla minninga, en það var afgirt. Ég náði samt boðlegri mynd af einu ljóninu til að senda á Eygló. Á leiðinni á hótelið lenti ég í djammlest. Reyndar bara milli tveggja stoppistöðva. Beint fyrir framan mig settist ung kona í ótrúlega stuttum kjól. Ég var alveg rosalega einbeitur í að horfa ekki á hana. Grandskoðaði lestarleiðirnar sem voru sýndar fyrir ofan hana.

Fyrr um daginn hafði Covid-19 heimaprófið borist mér á hótelið. Þar sem ég beið eftir lest áttaði ég mig á að ég hefði ekki ennþá klárað það. Ég notaði því tækifærið að stinga pinnanum upp í nefið á mér og setja í litla plastglasið með saltlausninni. Ég fékk síðan penna gefins á hótelinu (Covid!), skrifaði á „umslagið“ og stakk í póstkassa rétt hjá. Þar sem þetta var laugardagskvöld var augljós að ég fengi aldrei niðurstöðurnar áður en ég yfirgæfi landið.

Sunnudagur (illkvittni, indverskur og innferð)

Ég vaknaði seint og síðarmeir. Plön dagsins urðu að litlu. Ég fann veitingastað í Soho til að prófa. Hann virkaði frekar „fínn“ á mig og enginn matseðill á heimasíðinni. Ég er ekki fínn og ég er hrifinn af matseðlum. Þegar ég kom inn á staðinn leið mér ekkert óþægilega í mínum hversdagsfötum.

Maturinn var æðislegur. Samóskurnar yndislegar. Þeim fylgdi hálfgerður aukaréttur, kjúklingabaunir í frábærri sósu. Allt hitt frábært líka. Mæli með. Masala Zone Soho.

Síðasta leikhúsferð ferðarinnar var á söngleikinn Wicked (baksaga Galdramannsins í Oz). Það var örlítið vanhugsað hjá mér því sýningin er frekar löng. Ég hafði allavega gott sæti. Önnur röð frá sviðinu en lengst til hægri. Útsýnið var örlítið takmarkað en fótaplássið bætti það upp. Ég átti í smá einhliða haturssambandinu við konuna við hliðina á mér. Þegar ég var að leita að sætinu mínu lenti ég í vandræðum af því það var ekki einföld númeraröð á þeim. Hún hafði sett jakkann sinn yfir sætið mitt og faldi þar með númerið. Ég varð mjög pirraður þegar ég áttaði mig á þessu.

Það var ekki mikill tími eftir sýningu. Ég kom mér á hótelið að grípa farangur minn og síðan beint á Heathrow. Ég var auðvitað á góðum tíma. Upplýsingaskiltið sagði mér að bíða til 20:40 eftir að hliðarnúmerið yrði birt.

Það var ekki um margt matarkyns að velja á flugvellinum. Endaði með að fá burrito á Pret A Manger. Alveg boðlegt.

Þegar ég fór að athuga hvort hliðarnúmerið mitt væri komið biðu mín frekar óvænt, og óþægileg, skilaboð. „Hliðið“ var lengst í burtu og krafðist þess að nota skutlu. Ég þurfti því að drífa mig óhóflega hratt sem var ekki best miðað við þreytustig mitt.

Lítið meira að segja. Flugið óspennandi, sem er gott, og óáhugaverð rútu- og leigubílaferð. Gott að komast heim.

Á þriðjudaginn fór ég Covid-hraðpróf og fékk úr því á nær nákvæmlega sama tíma og úr breska prófinu. Fékk sumsé tvö nei. Ekki óvænt miðað við hve passasamur ég var.